Spillingarlögreglan í Namibíu handtók fyrrverandi sjávarútvegsráðherra landsins og einn kaupsýslumann í dag. Þegar rannsókninni hefur undið fram vill embættið ná tali af eigendum Samherja og treystir á aðstoð íslenskra yfirvalda við það. 

Rannsókn á ætluðum mútugreiðslum Samherja til namibískra stjórnmála- og áhrifamanna, stendur sem hæst þar ytra. Í dag handtók lögregla Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, sem sagði af sér embætti í kjölfar umfjöllunar Kveiks og Stundarinnar og kaupsýslumanninn Ricardo Gustavo.

Leita þriggja vegna málsins

Þriggja er leitað. Það eru þeir sem kallaðir eru hákarlarnir í umfjöllun Kveiks; Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra landsins, James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor, og frændi hans Tamson Fitty Hatuikulipi, sem einnig er tengdasonur sjávarútvegsráðherrans fyrrverandi.

Paulus Noa, framkvæmdastjóri spillingarlögreglunnar í Namibíu segir að það sé ekki vitað með vissu hvort þeir séu allir í Namibíu. „Ég fullyrði ekki að þeir séu allir í landinu. En hvað sem því líður þá náum við þeim því handtaka þeirra er óumflýjanleg. Við erum reiðubúnir undir þá og við náum þeim. Þetta er lítill heimur,“ sagði Noa í samtali við fréttastofu í dag.

Treystir á aðstoð íslenskra yfirvalda

Hann vonast eftir góðri samvinnu við íslensk yfirvöld enda teygi málið anga sína víða. Þegar rannsókninni hefur undið fram vill hann ná tali af eigendum Samherja og treystir á að íslensk stjórnvöld veiti liðsinni. „Við viljum ræða við yfirvöld og við viljum einnig ræða við eigendur þessa fyrirtækis. Ég vil ekki nefna nein nöfn eins og er en við viljum kannski ræða við alls konar fólk sem getur orðið okkur að gagni við rannsóknina.“