Með markaðssetningu á Hringvegi tvö er vonast til að fá fleiri ferðamenn á Vestfirði. Heilsárshringvegur um kjálkann verður til með Dýrafjarðargöngum og endurbótum á Dynjandisheiði.
850 kílómetrar um sjö sveitarfélög
Vestfjarðastofa og Vesturlandstofa hafa gert með sér samstarfssamning um þróun leiðarinnar - 850 kílómetra um sjö sveitarfélög á Vestfjörðum og Dalabyggð á Vesturlandi og kallast Hringvegur tvö og kemur til með Dýrafjarðargönum sem opna í september 2020. Göngin leysa af hólmi Hrafnseyrarheiði en ásamt endurbótum á Dynjandisheiði verður til heilsárshringvegur um Vestfirði en heiðarnar eru ekki ruddar yfir háveturinn.
Vonast til að Dynjandiheiði verði mokuð
Framkvæmdum á Dynjandisheiði á þó ekki að ljúka fyrr en 2022. „Við bindum vonir við að það verði ákveðin vetrarþjónusta til að hjálpa okkur við að tryggja að það verði hægt að kæra þessa tvo vetur sem verður ekki búið að ganga frá heiðinni,“ segir Díana Jóhannsdóttir, forstöðumaður markaðsstofu Vestfjarða.
Fara aðra leið en nú
Ljóst er að umferð heimamanna kemur til með að breytast með tilkomu samgöngubótanna. Ísfirðingar verða fljótari suður til Reykjavíkur vesturleiðina um Dýrafjarðargöng en um Ísafjarðardjúp og Strandir. Ingibjörg Benediktsdóttir er oddviti í Strandabyggð. „Það er aðalega verslun, verslun og þjónusta sem mun finna fyrir þessu. Þá aðallega matvörubúðin og veitingahúsin sem eru hérna.“
Vilja dreifa ferðamönnum um kjálkann
Með Hringvegi tvö er reynt að fá ferðamenn á Vestfirði en jafnframt að leiða þá víðar um kjálkann. „Við horfum allavega á þetta mjög jákvæðum augum,“ segir Ingibjörg.
„Við erum minnst heimsótta svæðið á Íslandi og það er okkar von að þarna séum við komin með einhverja vöru sem við getum markaðssett og selt víðar,“ segir Díana.