Miklar breytingar hafa orðið á Hítará síðan að stórt berghlaup féll í ána í fyrra. Skipulagsstofnun hefur til skoðunar hugmyndir landeigenda um að grafa stóran skurð í gegnum alla skriðuna.

Eitt stærsta berghlaup frá landnámi varð í Hítardal á Mýrum í júlí í fyrra. Skriðan breytti landslagi í dalnum og stíflaði ána, sem fann sér þó fljótlega farveg framhjá stíflunni.

Hítará hefur um langt árabil verið ein besta laxveiðiá landsins, en eftir að skriðan féll höfðu fiskifræðingar miklar áhyggjur af framtíð laxastofnsins í ánni, enda þornaði upp stór hluti af hrygningar- og uppeldissvæði laxins. Þá var áin mjög gruggug eftir að skriðan féll. En nú tæplega ári síðar er allt annað uppi á teningnum. Áin virðist komin í sitt fyrra horf, og er orðin tær að nýju.

„Ég held að áin sé búin að ná jafnvægi,“ segir Orri Dór Guðnason, leigutaki Hítarár. „Hún er búin að hreinsa sig og lítur vel út fyrir sumarið. Nýi farvegurinn er spennandi. Ég myndi segja að sú á sem við erum að fara að veiða í í sumar sé ekki minna spennandi en sú sem rann fyrir skriðu.“

Byggja upp trúverðugleika

Orri segir að 2018 hafi verið meðalár þegar kemur að laxveiði í ánni. 

Hefurðu tekið eftir því að reyndir veiðimenn hafi áhyggjur af stöðunni?

„Já, skiljanlega. Menn sáu auðvitað þessar rosalegu myndir strax eftir jarðfallið í fyrra og það var mjög skiljanlegt að menn settu upp stórt spurningamerki varðandi hvernig lífríkið myndi fara hérna.“

Hvernig gengur að selja veiðileyfi?

„Það gengur ágætlega. Þetta hefur alveg haft áhrif og það eru ennþá dagar lausir. Það þarf að byggja upp trúverðugleika á ánni aftur og það er eingöngu gert með því að sýna hvað gengur upp úr henni. En við erum spennt fyrir sumrinu.“

Veiðifélag Hítarár hefur áhuga á að endurheimta gamla árfarveg árinnar, með því að grafa skurð í gegnum skriðuna. Félagið hefur sent Skipulagsstofnun fyrirspurn um hvort slík framkvæmd kalli á mat á umhverfisáhrifum. Umhverfisstofnun vinnur nú að umsögn í málinu.

„Það er vilji fyrir því hjá bændunum sem eiga ánna að skoða möguleika á því, en það er ekki ljóst hvernig það fer. Og kannski ágætt að vera ekkert að tjá sig um það. En áin sem núna er, hún er spennandi,“ segir Orri.

Þannig að það er ekkert sérstakt hagsmunamál fyrir þig að það verði gert?

„Alls ekki. Mér líst mjög vel á það sem ég er með í höndunum núna.“