Kennarar eru ósáttir við að þurfa að vera allan vinnudaginn í skólanum, eins og samið var um í síðasta kjarasamningi. Því er ein helsta krafa þeirra nú að horfið verði frá þessari auknu viðveruskyldu. Þetta segir Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, nýkjörinn formaður Félags grunnskólakennara. Hún segir að dregið hafi úr starfsánægju kennara auk þess sem bindingin, eins og kennarar nefna viðveruskylduna, hafi ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt.
Þorgerður Laufey var kjörin formaður Félags grunnskólakennara. Tilkynnt var um úrslitin í dag. Hún hlaut 45,5 prósent atkvæða, meira en næstu tveir frambjóðendur til samans. Hún tekur við embætti á aðalfundi félagsins í maí.
Íhugun og sjálfskoðun verða útundan
Það segir sig sjálft að kennarar eru í skólanum þegar þeir kenna og að einhverju leyti við undirbúning eða í samskiptum við aðra fagmenn, sagði Þorgerður í Kastljósi í kvöld, þar sem hún ræddi áherslumál kennara í kjaraviðræðum við sveitarfélögin. „Hins vegar kemur að þessum mikilvæga þætti í starfi kennara, það er þessi íhugun og sjálfskoðun sem felst í því að kennari meti kennslu sína dag frá degi og skoði hvort hann geti gert betur eða hvernig hann nálgast verkefni sín á sem bestan hátt.“
Þorgerður segir að kennarar séu bundnir enn frekar á starfstöðvum sínum á sama tíma og áhersla sé lögð á aukinn sveigjanleika í störfum fólks.
Kauphækkanirnar gangi ekki til baka
Í síðasta kjarasamningi var samið um kauphækkun gegn því að kennarar sinntu dagvinnunni í skólanum, en gætu ekki farið að lokinni kennslu og sinnt öðrum hlutum starfsins heima. Dagvinnulaun kennara hafa hækkað um 47 prósent frá 2014 samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það er meðal annars vegna krafna um aukna viðveru og þess að eldri kennarar gáfu eftir kennsluafslátt sem þeir hlutu með hækkandi starfsaldri.
Þorgerður svaraði neitandi þegar hún var spurð hvort krafa kennara um að draga úr viðveruskyldunni yrði ekki til þess að viðsemjendur þeirra vildu draga launahækkunina til baka. Hún sagði að engin krónutala hefði verið sett á þetta framsal réttinda.