Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista, segir að samstarf við Viðreisn komi ekki til greina og að síðasti meirihluti hafi fjarlægst sínar vinstri rætur. Flokkurinn hafi því ákveðið að taka ekki þátt í meirihlutasamstarfi á þessu kjörtímabili.

Sanna Magdalena og Daníel Örn Arnarsson varaborgarfulltrúi greindu frá ákvörðuninni á vefsíðu flokksins í gærkvöld. 

Sanna sagði á Morgunvaktinni í morgun að samstarf við Viðreisn komi ekki til greina. „Ég held svo að í samræðum um meirihlutasamstarf að þá er líklegt að Viðreisn kæmi alltaf til dæmis að borðinu þar. Við Sósíalistar lítum á Viðreisn sem enn eitt afl nýfrjálshyggjunnar sem er eitthvað sem við tölum gegn og við leggjum mikla áherslu á að draga úr áherslum nýfrjálshyggjunnar á samfélagið. Þannig að við viljum ekki ganga inn í eitthvað þar sem við þyrftum að slá af kröfum okkar af því að við ætlum ekkert að gefa afslátt af því.“

Sanna segir ekki heldur koma til greina að fara í samstarf við flokkana sem mynduðu meirihluta á síðasta kjörtímabili. „Það snýst dálítið um það að við erum komin fram á sjónarsviðið af því að okkur fannst í rauninni að þessir svokölluðu vinstri flokkar ekki vera að svara þörfum og væntingum okkar og að þeir hefðu fjarlægst sínar rætur. Þannig að maður hugsar líka hvernig myndi það líta út fyrir kjósendum ef við erum allt í einu gengin inn í þetta batterí sem við vorum svo mikið að gagnrýna?“

Engar formlegar viðræður um myndun meirihluta eru hafnar en ýmis samtöl hafa átt sér stað undanfarna daga. Meirihlutaflokkar síðasta kjörtímabils hafa samtals tíu borgarfulltrúa en tólf þarf til að ná saman meirihluta. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins hafa átt saman fund en saman hafa þessir flokkar níu borgarfulltrúa. Viðreisn er því í lykilstöðu með sína tvo borgarfulltrúa en oddviti flokksins hefur bæði rætt við oddvita Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins. 

Fréttin var leiðrétt klukkan 9:26. Í fyrri útgáfu kom fram að Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur hefðu tíu borgarfulltrúa samtals. Þeir eru hins vegar níu. Sjálfstæðisflokkurinn fékk átta menn kjörna og Miðflokkurinn einn.