Dómstólasýslan reyndi án árangurs í lok júní að bregðast við því sem hún kallar bráðavanda hjá Landsrétti því fjórir af 15 dómurum réttarins hafa ekki sinnt dómstörfum eftir dóm Mannréttindadómstólsins síðan um miðjan mars. Dómstólasýslan leitaðist eftir því við dómarana að þeir ákvæðu að fara í launað leyfi til áramóta. Þrír af fjórum óskuðu ekki eftir því að svo stöddu. Talið er að ófremdarástand eigi eftir að skapast innan skamms vegna málafjölda. Áætlað er að 500 mál bíði í árslok.

Gögn fengust með vísan í upplýsingalög

Fréttastofan óskaði eftir gögnum frá dómsmálaráðuneytinu með vísan í upplýsingalög er varða svokallað Landsréttarmál fyrir Mannréttindadómstólnum. Dómstóllinn tekur í fyrsta lagi ákvörðun 9. september um hvort yfirdeild dómstólsins taki málið fyrir. Gögnin bárust Fréttastofunni í gær.

Ráðuneytið vildi vita afstöðu dómarana

Fyrir réttum mánuði spurði dómsmálaráðuneytið forseta Landsréttar um hvaða áhrif það hefði á störf réttarins að fjórir dómarar væru ekki við störf. Beðið var um tölulegar upplýsingar og að forsetinn kannaði hjá dómurum hvernig þeir hygðust bregðast við ef dómurinn yrði tekinn til endurskoðunar og líka ef svo yrði ekki. 

Í svari Hervarar Þorvaldsdóttur forseta Landsréttar 24. júní segir að af samtölum við dómarana fjóra verði helst ráðið að hugur þeirra standi til þess að koma aftur til starfa taki yfirdeild Mannréttindadómstólsins dóminn til endurskoðunar. Hinni spurningunni, um ef ekki yrði tekið til endurskoðunar, var ekki svarað. 

Ófremdarástand - 482 mál bíða í árslok

Í svarinu segir líka að málsmeðferðartími haldi áfram að lengjast verði rétturinn ekki fullskipaður. Skrifstofustjóri Landsréttar tekur dýpra í árinni og segir ófremdarástand skapast innan skamms og áætlar að um áramótin verði óafgreidd áfrýjuð mál samtals 482. 

Forseti Landsréttar ein á móti

Ráðuneytið sendi Dómstólasýslunni afrit af bréfi sínu til Landsréttar. Stjórn Dómstólasýslunnar kom saman 24. júní. Í bókun stjórnarinnar í tilefni af bréfinu segir að það taki meira en heilt ár fyrir fullskipaðan Landsrétt að anna málunum 500 og að það þýði verulegan drátt á málsmeðferð. Fjórir af fimm stjórnarmönnum Dómstólasýslunnar greiddu atkvæði með bókuninni en Hervör forseti Landsréttar greiddi ein atkvæði gegn henni. 

Grípa þurfi til úrræða til að manna réttinn

Í bókuninni segir líka að fari svo að yfirdeild Mannréttindadómstólsins taki málið fyrir megi vænta niðurstöðu í lok næsta árs. Þess vegna verði að grípa til úrræða til að manna Landsrétt. Annað hvort þurfi að setja dómara til lengri tíma eða skipa nýja. Breyta þurfi lögum í báðum tilfellum. Hafni Mannréttindadómstóllinn að vísa máli til yfirdeildarinnar þurfi líka að bregðast við því. Til dæmis séu nokkur mál í bið hjá Hæstarétti vegna landsréttardómaranna fjögurra og dóms þar um að vænta í árslok.

Lögðu til setningu dómara til skamms tíma

Til að bregðast við bráðavandanum ákvað Dómstólasýslan að leggja til að dómarar yrðu settir við Landsrétt frá lokum sumarleyfa til ársloka svo tryggt yrði að Landsréttur starfaði á fullum afköstum. Til þess þarf ekki lagabreytingu. En til þess að það væri hægt þurftu hins vegar dómararnir fjórir að óska eftir launuðu leyfi því ekki er hægt að skikka þá til þess.

Óskað eftir fundi hið fyrsta

Formaður Dómstólasýslunnar og framkvæmdastjóri hennar héldu fund með dómurunum fjórum 25. júní. Þrír þeirra óskuðu að svo stöddu ekki eftir leyfi, segir í bréfi Dómstólasýslunnar til dómsmálaráðherra, en einn sagðist myndu gera grein fyrir afstöðu sinni innan tíðar. Í lok bréfsins er óskað eftir fundi með ráðherra svo fljótt sem verða megi.