Þórir Ibsen sendiherra og aðalsamningamaður Íslands í komandi samningaviðræðum við Breta segir að Íslendingar vonast til að ná aðeins betri viðskiptasamningum við Breta um sjávarafurðir eftir Brexit en þeir hafa núna. Bretar hafa ekki ennþá gefið út framtíðarmarkmið sín fyrir viðskipti milli ríkja Evrópsambandsins og EES
Umfangsmikill undirbúningur fyrir Brexit
Bretar ganga úr Evrópusambandinu á morgun og þá hefst aðlögunartímabil sem stendur í 11 mánuði. Á þeim tíma ætla Bretar að semja við ríki Evrópusambandsins og ríki Evrópska efnahagssvæðisins um framtíðarviðskipti.
Mjög mikill undirbúningur hefur verið hér á landi vegna Brexit. Meðal annars voru stofnaðir fimm vinnuhópar í utanríkisráðuneytinu. Einn hópurinn fjallaði um markaðsaðgang með sjávarafurðir og landbúnaðarvörur. Annar um tæknilegar viðskiptahindranir, orkumál og slíkt. Sá þriðji tók fyrir fjárfestingar, flutningaþjónustu og fjarskipti o.s.frv. Fjórði tók fyrir frjálsa för fólks, jafnréttis- og umhverfismál og fleira og fimmti öryggis- og varnarmál, stjórnun fiskveiða og margt fleira.
Ísland hefur gert fjóra samninga við Bretland
Um langt skeið var ekki ljóst hvort Bretar færu út með eða án útgöngusamnings og því þurfti í samningaviðræðunum milli Íslendinga og Breta að gera ráð fyrir hvoru tveggja.
Jóhanna Jónsdóttir er sérfræðingur í unanríkisráðuneytinu. „Við höfum gert hvorki meira né minna en fjóra samninga við Bretland sem varða þessi útgöngumál.“
Einn af þeim, útgöngusamningur milli Bretlands og Íslands, Noregs og Lichtenstein var undirritaður í Lundúnum á þriðjudaginn. Óvissa er í kringum komandi samningaviðræður.
„Það er rétt að Bretar eru ekki búnir að gefa út þeirra framtíðarmarkmið, hvorki í viðræðum við ESB né við náin samstarfsríki eins og okkur. Þannig að við munum þurfa að bíða aðeins og sjá nákvæmlega hverjar þeirra áherslur og hver þeirra markmið verða þegar við hefjum viðræðurnar.“
Bjartsýnn á að samningar náist
Þórir Ibsen sendiherra verður aðalsamningamaður Íslendinga í komandi viðræðum.
„Við náttúrlega væntum þess að ná aðeins betri samningum hvað varðar sjávarafurðir heldur en við höfum núna, það eru tækifæri í því. Við þurfum að tryggja áframhaldandi loftferðir vegna þess að það er svo gríðarlega miklar samgöngur milli Íslands og Bretlands ekki bara á milli okkar líka áfram yfir Atlantshafið.“
Á næstu ellefu mánuðum þurfa Bretar ekki bara að semja við Íslendinga heldur líka öll ríki Evrópusambandsins.
„Við erum náttúrlega mjög framarlega í röðinni vegna þess að við erum hluti af þessum innri markaði með Noregi og Lichtenstein og Evrópusambandsríkjunum.“
Bresk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau ætli ekki að framlengja viðræðurnar.
„Þannig það er alltaf spurning hvað við áorkum miklu á þeim tíma. En ég er tiltölulega bjartsýnn á að við munum ná að ganga frá samningnum hvað varðar venjuleg viðskipti, vöruviðskipti og þjónustuviðskipti.“