Milljónir barna og ungmenna um allan heim flykktust út á götur borga í dag til að taka þátt í mótmælum vegna loftslagsbreytinga. Fyrirmyndin er eins og alþekkt er skólaskróp Gretu Thunberg sem tók sér stöðu við sænska þinghúsið föstudag einn í ágúst í fyrra og nær alla föstudaga þaðan í frá. Merki hennar hefur verið tekið upp víða um heim og í febrúar fór ungt fólk að koma saman í hádeginu á föstudögum á Austurvelli í Reykjavík og gerði enga undantekningu í rigningunni í dag.
„Við viljum aðgerðir núna,“ var stefið sem endurtekið var á Austurvelli í dag. Ungt fólk sem þar kom saman var hvatt til að standa áfram vaktina og halda áfram að mæta.
Eyrún Dodziakos sagðist hafa komið á Austurvöll á hverjum föstudegi frá því í febrúar og það væri full ástæða til. Ungt fólk hefur áhyggjur af framtíðinni og vill að stjórnvöld grípi til aðgerða strax. Það að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum getur verið fyrsta skrefið, segir Eyrún. Hún reyni að temja sér sjálfbærari lifnaðarhætti og hafa áhrif á fjölskyldu sína.
Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, sem var ein þeirra sem ávörpuðu fundinn hvatti fólk til að hafa hátt og brýna stjórnmálamenn til góðra verka. Á mánudaginn verður fundur á vegum Sameinuðu þjóðanna helgaður loftslagsmálum og áríðandi sé að nesta ráðamenn þangað. Rannveig Guðmundsdóttir hefur sótt mótmælin hér og líka í Þýskalandi en þar var meiri áhersla á að hætta þurfi kolabrennslu. Hér sé betri staða vegna endurnýjanlegrar orku en margt þurfi að gera.
Hálfdán Árni Jónsson sem var einn mótmælenda hefur líka breytt hegðun sinni í mörgu, minnkað kjötneyslu og kaupir helst notuð föt frekar en ný. Hann, líkt og margir sem voru mættir, sagðist ganga lengra en aðrir heimilismenn en njóta samt stuðnings. Mestu skipti þó almenn viðhorfsbreyting og aðgerðir stjórnvalda.