Heimildarmyndin Síðasta haustið eftir Yrsu Rocu Fannberg var frumsýnd á RIFF á dögunum en er nú komin í almennar sýningar. Þar fylgist Yrsa með ábúendum á Krossnesi á Ströndum síðasta haustið áður en þeir bregða búi.
Yrsa Roca segist hafa fengið hugmyndina að myndinni þegar vinkona hennar norður í Árneshreppi sagði henni frá því að fjórir af átta bændum í sömu sveit væru að fara að hætta búskap, þar á meðal hjónin Úlfar Eyjólfsson og Oddný Þórðardóttir í Krossnesi
„Þessi hugmynd hafði blundað lengi með mér síðan vinkona mín sagði mér frá pabba sínum sem var að bregða búi og ég hugsaði að það væri gaman að taka ljósmyndir af því. Ég var hins vegar að fara að gera aðra mynd en ákvað að hugsa aðeins um þetta. Svo fór ég heim og svaf mjög illa en fékk mjög skýra hugmynd um hvernig ég vildi gera þetta þegar ég vaknaði. Ég fór því norður, heimsótti Úlfar og Oddnýju og þau sögðu bara eins og maður segir í sveitinni: Já, ætli það ekki.“
Yrsa segir að fyrir borgarbarnið sem hún er hafi þetta virst mjög dramatískur viðburður en það kom henni á óvart hversu lítið hjónin hafi gert úr honum.
„Mig langaði að fanga þennan veruleika á meðan hann er til; að fanga síðasta haustið hjá bónda sem er að bregða búi. Það er frekar dramatískt að vissu leyti en það sem sló mig var að þau díluðu við veruleikann eins og þetta væri bara hvert annað haust. Þeir gera bara hlutina eins og þeir hafa gert það, þau taka örlögunum á mjög fallegan hátt.“
Fjallað var um Síðasta haustið í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.