Sunnan Vestrahorns er Stokksnes og þar rétt hjá, við fjallsræturnar, eyðibýlið Horn. Þar fyrir utan eru mörg sker nálægt landi og þar er sellátur sem gaf marga kópa hér á árum áður. Þar er líka víkingaþorp.

Það er vel hægt að fara í selaskoðun á þessum slóðum og um leið er hægt að skoða víkingaþorpið sem þar stendur. Þetta er ekki alvöru gamalt víkingaþorp heldur leikmynd sem leikstjórinn Baltasar Kormákur kom þarna upp 2009. Baltasar hefur lengi gengið með þá hugmynd í maganum að gera stóra víkingamynd og þorpið er liður í því.  

En þar er líka rekið kaffihús og frá Stokksnesi eru fjölmargar skemmtilegar gönguleiðir. Og það er viðeigandi að víkingaþorp standi nú þar sem landnámsmaðurinn Hrollaugur Rögnvaldsson settist að eftir að öndvegissúlur hans rak að landi við Vestrahorn. 

Í Ferðastiklum ferðuðumst við um Suðausturland, frá Berufirði að Höfn í Hornafirði. Þátturinn er á dagskrá RÚV á sunnudagskvöldum.