Óhætt er að segja að lið Vals í kvennaflokki hafi átt góðu gengi að fagna á árinu. Félagið skráði sig í sögubækurnar er það varð það fyrsta til að vera handhafi Íslandsmeistaratitils í fótbolta, handbolta og körfubolta samtímis.
Körfuboltalið Vals hafði aldrei unnið stóran titil í sögunni fyrir síðasta keppnistímabil en vann alla titla sem í boði voru með miklum yfirburðum. Liðið vann deild, bikar og Íslandsmeistaratitil.
Handboltaliðið spilaði einnig frábærlega á síðustu leiktíð þar sem Valskonur höfðu betur gegn Fram í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn og bikarmeistaratitilinn, auk þess að verða deildarmeistari. Bæði lið unnu því þrefalt í vor.
Körfuboltalið Vals var valið lið ársins á hófi íþróttamanns ársins í Hörpu í gærkvöld. Körfuboltaliðið og handboltaliðið fengu jafn mörg atkvæði í kjöri íþróttafréttamanna en körfuboltaliðið hafði betur þar sem fleiri settu liðið í fyrsta sæti.
Þá fylgdi kvennalið Vals í fótbolta afrekum innanhúsliðanna með því að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil frá 2010 í sumar og skráði félagið Val þar með í sögubækurnar.
Alls sjö titlar kvennaliða Vals á einu ári, afrek sem verður seint toppað. Rætt er við leikmenn liðanna þriggja og afrek félagsins gerð upp í myndskeiðinu að ofan.