Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis og auðlindaráðherra bað Umhverfisstofnun í dag um að gera viðbragðsáætlun vegna hugsanlegs síldardauða í Kolgrafafirði. Þar drápust á síðastliðnum vetri um fimmtíu og tvö þúsund tonn af síld og þúsundum tonna skolaði upp í fjörur.

Felst bendir til þess að sumargotssíldin muni halda sig við sunnanverðan Breiðafjörð í vetur eins og undanfarna vetur og því þykir ástæða til þess að vakta Kolgrafafjörð sérstaklega. Síldardauðinn síðasta vetur á sér engin þekkt fordæmi, að minnsta kosti ekki í þeim mæli sem þá gerðist. Nærri lá að þá hafi drepist, fyrst á einum degi í desember og síðan aftur á einum degi í febrúar, sem svaraði öllum síldarafla ársins á undan. Verðmæti kvótans þá nam um tuttugu milljörðum króna.

Strax eftir seinni atburðinn í fyrravetur var sett á laggirnar sameiginlegt rannsóknaverkefni Hafrannsóknastofnunar og vegagerðarinnar á því hvort rekja mætti þessa atburði til þverunar fjarðarins árið tvö þúsund og fjögur. Vegur var þá lagður yfir grynningar í firðinum og eiðið á milli þeirra brúað með tvö hundruð og þrjátíu metra langri brú og hundrað og fimmtíu metra virku vatnsopi undir. Rannsóknir hafrannsóknastofnunar sýndu fram á að skyndilegur súrefnisskortur hefði valdið síldardauðanum, síldin einfaldlega kafnaði. En hvað olli súrefnisskortinum. Súrefni berst inn í fjörðinn með tvennum hætti, úr andrúmslofti og með innstreymi súrefnisríks sjávar. Sýnt hefur verið fram á að veðurfar á þessum slóðum einkenndis af kulda og stillum, sem aftur leiðir af sér að lítið berst af súrefni úr andrúnloftinu.  Ein getgátan er sú að hringrás súrefnisríks sjávar inn í fjörðinn og út úr honum aftur hefði verið rofin með  vegagerðinni, og er rannsóknar Hafrannsóknastofnunar og Vegagerðarinnar ætlað að skera úr um hvort sú getgáta á við rök að styðjast. Sett hafa verið upp margvísleg mælitæki til að mæla strauma og sjávarföll ýmsa aðra þætti innan og utan vegar og brúar. Niðurstöður úr þessum rannsóknum liggja hins vegar ekki fyrir. Það er því enn alls óljóst hvort grípa þarf til sérstakra ráðstafana og breyta veginum, annað hvort með því að loka fyrir leið síldarinnar inn fyrir veg og brú, eða byggja aðra brú svo að inn og útstreymi sé tryggt. Rétt er að taka fram að vegalagningin yfir fjörðin var í einu og öllu í samræmi við þær kröfur sem gerða voru í mati á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Ljóst er að ekki verður gripið til neinna slíkra ráðstafana fyrir veturinn. Þá hafa tilraunir Hafrannsóknastofnunar til að fæla síldina burtu með hljóð eða ljósmerkjum ekki borði árangur.

Sú viðbragðsáætlun sem umhverfis og auðlindaráðherra hefur falið Umhverfisstofnun að gera beinist að því að lágmarka það tjón sem óhjákvæmilega hlýst af því ef sagan frá síðasta vetri endurtekur sig. Gríðarleg lyktarmegun hlýst af miklu magni rotnandi síldar eins og íbúar á bænum Eiði við Kolgrafafjörð fengu að reyna síðasta vetur. Þá stafar fuglalífi mikil hætta af grútarmengunni sem fylgir því þegar þúsundir tonna af síld rotna í fjörum.  Í tilkynningu Umhverfis og auðlindaráðuneytisins í dag segir að hreinsunaraðgerðir í fyrra hafi tekist vonum framar og búi stofanir jafnt semheimamenn að þeirri reynslu. Hins vegar er bent á að takmarkað rými sé til að grafa meira af síld  auk þess sem hún geti rekið á landi á fjörum þar sem óhægt sé um vik að koma tækjum við.