Spillingarlögreglan í Namibíu mótmælti því að sexmenningarnir sem grunaðir eru um stórfelld lögbrot í tengslum við Samherjamálið yrðu látnir lausir gegn tryggingu. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar segir að íbúar í Namibíu séu reiðir vegna málsins. Hann væntir þess að íslensk stjórnvöld sýni vilja til að takast á við spillingu.
Ákærur hafa verið gefnar út á hendur sexmenningunum í Namibíu sem eru grunaðir um margvísleg lögbrot í tengslum við Samherja-málið. Þeir hafa verið úrskurðaðir í varðhald í tæpa þrjá mánuði. Mennirnir komu allir fyrir dómara í Windhoek, höfuðborg Namibíu í dag. Á vef The Namibian kemur fram að þeim hafi öllum verið kynnt sakarefnin þegar þeir komu fyrir dómara á föstudag.
Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður ríkisútgerðarinnar Fishcor, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau og Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans, voru þá ákærðir fyrir að hafa þegið rúmlega 103 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, fyrir að tryggja tveimur félögum í íslenskri eigu kvóta, eins og það er orðað í frétt The Namibian.
Esau er ákærður fyrir að hafa misbeitt valdi sínu sem sjávarútvegsráðherra á árunum 2014 til 2019. Þá eru þeir Shangala, Hatuikulipi-frændur og Gustavo ákærðir fyrir að hafa aðstoðað Esau við að misbeita valdi sínu og hagnast persónulega. Þeir eru einnig ákærðir fyrir skattsvik og að hafa blekkt namibísku ríkisstjórnina. Þá eru allir sex mennirnir ákærðir fyrir peningaþvætti.
Rannsókn ekki lokið
Sexmenningarnir voru úrskurðaðir í varðhald til 20. febrúar. Búist var við því að þeir færu fram á að vera leystir úr haldi gegn tryggingu, en það gerðu þeir ekki.
„Sem rannsóknarstofnun höfðum við sagt ríkisvaldinu að við vildum ekki að þeir fengju lausn gegn tryggingu vegna þess að rannsókn stendur enn yfir og það er margt sem við eigum eftir að rannsaka betur áður en dómstóllinn getur íhugað að veita þeim lausn gegn tryggingu,“ segir Paulus Noa, framkvæmdastjóri spillingarlögreglunnar í Namibíu.
Töluverður fjöldi fólks kom saman fyrir framan dómshúsið í dag, og mótmælti því meðal annars að sexmenningunum yrði sleppt út haldi.
„Já fólkið er mjög reitt. Það sem mennirnir gerðu er alvarleg spilling og Namibíumenn líða ekki svona spillingu, eins og ég sagði þér um daginn.“
Noa segir að réttarhöldunum hafi nú verið frestað til 20. febrúar. Það sé þó ekki þar með sagt að þeim verði fram haldið þann tiltekna dag, enda óvíst að rannsókn málsins verði lokið.
Hvað gang mála hér á landi varðar sagði Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við fréttastofu í morgun, að málið væri til rannsóknar hjá embættinu. Frekari upplýsingar verði ekki gefnar að svo stöddu.
„Við væntum þess að stjörnvöld á Íslandi sýni, sem fyrr, vilja sinn til að takast á við spillingu þegar Íslendingar eiga aðild að spillingarmálum,“ segir Noa.