Kvikmyndagerðarmaðurinn Davíð Óskar Ólafsson er í raun alinn upp í bransanum en hann varði miklum tíma með móður sinni, Valdísi Óskarsdóttur, í klippiherberginu þegar hann var ungur. Árið hefst með miklum hvelli hjá honum en nýverið voru bæði frumsýndir á RÚV spennuþættirnir Brot sem Davíð framleiddi og leikstýði og kvikmyndin Gullregn sem hann framleiddi og grét sjálfur úr hlátri á frumsýningunni á.
Davíð Óskar hefur lifað og hrærst í kvikmyndaheiminum frá blautu barnsbeini en móðir hans, Valdís Óskarsdóttir klippari og leikstjóri, hefur klippt myndir á borð við Sódómu Reykjavík, dogmamyndina Festen eftir Thomas Vinterberg og stórmynd Michels Gondry, Eternal sunshine of the spotless mind, sem hlaut mikið lof og fékk meðal annars hin virtu BAFTA-verðlaun fyrir klippinguna. Valdís leikstýrði og klippti einnig kvikmyndina Sveitabrúðkaup sem var fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem Davíð Óskar framleiddi, þá aðeins 25 ára gamall. Davíð var gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1 þar sem hann sagði frá kvikmyndabakteríunni, uppeldinu og þeim verkefnum sem hann hefur tekið þátt í frá því hann stóð sig herfilega í sínu fyrsta verkefni sem móðir hans reddaði honum.
Brýndi fyrir syninum að komast áfram á eigin verðleikum
Það skyldi engan undra að Davíð skyldi sjálfur feta kvikmyndagerðarbrautina en hann hefur rekið framleiðslufyrirtækið Mystery Productions frá árinu 2006. Þó að móðir hans sé virt í bransanum og með mikil tengsl þá hefur hún ekki oft reddað syni sínum vinnu heldur hefur hún lagt áherslu á að hann komist áfram á eigin verðleikum. „Hún hefur reyndar reddað mér tvisvar sinnum en eftir annað skiptið sagði hún mér að þetta væri í síðasta skipti sem hún gerði þetta og nú þyrfti ég að standa á eigin fótum,“ segir Davíð kíminn. Það hefur alltaf verið móður hans mikilvægt að hann standi á eigin fótum og komist ekki áfram í bransanum á hennar velgengni. Þegar mæðginin hafa í gegnum tíðina unnið saman að verkefnum hafa þau jafnvel ekki sagt samstarfsfólki sínu frá tengslum sínum. „Í mörg ár töluðum við ekki um að við værum mæðgin og ef við vorum að vinna saman vissi fólk ekki að hún væri mamma mín.“
Hefði verið rekinn ef ekki væri fyrir móðernið
Í fyrra skiptið sem Davíð fékk vinnu í gegnum móður sína starfaði hann sem aðstoðarmaður á setti kvikmyndarinnar Tvilling sem var framleidd í Danmörku þar sem Davíð bjó þá, aðeins átján ára gamall, nýbúinn að klára menntaskóla. Hann viðurkennir að frammistaða hans hafi ekki verið upp á marga fiska í þessu fyrsta verkefni hans. „Ef ég hefði haft mig í vinnu hefði ég verið búinn að reka mig nokkrum sinnum,“ segir hann og hlær. „Ég vaknaði ekki á réttum tíma, sótti leikarana of seint og það er eitthvað sem ég áttaði mig á þegar verkinu var lokið. Þá hugsaði ég: Vá, mikið hrikalega var ég lélegur.“ Hann áttaði sig á því þarna að ef mamma hans væri ekki sú sem hún er hefði hann verið látinn fara samstundis. Það gerðist hins vegar ekki þótt léleg frammistaða hans í þessu verkefni ætti eftir að draga dilk á eftir sér síðar.
Davíð bað móður sína enn einu sinni að hjálpa sér að fá vinnu en þá í öðru landi. Hann fékk starf sem framleiðsluaðstoðarmaður við tökur á kvikmyndinni Niceland sem framleidd var af ZikZak. Þar fékk Davíð töluvert meira að gera og áttaði sig hann á því hve mikla ástríðu hann hefði fyrir kvikmyndagerð og framleiðslu. Honum gekk töluvert betur en í fyrra skiptið, raunar svo vel að honum var boðinn starfssamningur. Hann afþakkaði þó starfið og skráði sig í kvikmyndaskóla í Danmörku þar sem hann kynntist Árna Filippussyni samstarfsmanni sínum og þeir urðu fljótlega miklir mátar. Í dag eru þeir bestu vinir og meðeigendur framleiðslufyrirtækisins Mystery Productions.
Sannfærði framleiðendurna að gefa sér annan séns
Eftir árið í skólanum sóttu þeir Árni báðir um starf hjá Nimbus Film Productions, framleiðslufyrirtækinu sem Davíð hafði starfað fyrir með slæmum árangri á unglingsaldri. Árna var boðið starf um hæl en Davíð fékk engin svör. „Ég ákvað þarna að hringja ekki í mömmu heldur hringja í Nimbus. Ég var kallaður á fund og þau sögðu við mig: Ef við eigum að vera hreinskilin þá töluðum við framleiðendurna á Tvilling og við erum ekki viss um að við viljum ráða þig,“ segir Davíð og glottir. „Ég hugsaði stóð ég mig svona illa? Það eru komin þrjú ár, guð minn almáttugur.“
Hann lét ekki þar við sitja heldur bað um möguleikann á að sanna sig. „Ég sagði: Ég veit ég var ótrúlega lélegur en ég var átján ára, nýkominn úr menntó og vissi ekkert hvað ég var að gera.“ Framleiðendurnir sannfærðust og gáfu Davíð möguleikann á að sanna sig sem fáir geta líklega efast um að hann hafi gert síðan.
Fylgdist með mömmu í klippiherberginu
Valdís var orðin þrjátíu og sjö ára þegar hún sótti um í kvikmyndaskóla í Danmörku þar sem hún lærði í fjögur ár. Davíð flutti þá með móður sinni til Danmerkur en þau fóru aftur til Íslands eftir útskrift hennar. Á Íslandi vann hún um stund en fljótlega bauðst henni að fara aftur til Danmerkur og þá byrjaði Davíð að venjast því að fara með henni í vinnuna og fylgjast með henni að störfum í klippiherberginu. „Ég sat og beið á meðan hún var að vinna og þá fór hún að spyrja mig um álit. Mér fannst þetta skemmtilegt og ég held það hafi mótað mig að miklu leyti og kennt mér að lesa tempó, leik og myndefni. Ég fékk þetta beint í æð frá henni.“
Bíður ekki eftir svörum heldur sækir þau
Í gegnum klippivinnu móður sinnar lærði Davíð einnig að temja sér þolinmæði fyrir verkefnum því líkt og móðir hans segist hann ekki hætta fyrr en hann hafi náð fullkomum tökum á því sem hann er að gera þótt það geti tekið langan tíma. En þau mæðgin eiga það samt sameiginlegt að geta verið óþolinmóð á ýmsum sviðum og segir Davíð að það geti oft verið kostur. „Ég er þannig að ég bíð ekki eftir svörum heldur sæki þau. Það er góður eiginleiki hjá framleiðanda, viss kostur en get líka verið smá galli. Mér finnst þó mikilvægt þegar maður hefur trú á því sem maður að gera þá hafi maður breitt bak og bein í nefinu því kvikmyndagerð er ekki auðveld. Eitt verkefni tekur nokkur ár og þú mátt ekki gefast upp.“
Að þessu leyti er mikilvægt að sögn Davíðs að temja sér þolinmæði en maður þarf líka að vera láta vaða, sækjast eftir styrkjunum og hafa trú á verkefninu. „Ef þú færð höfnun þarftu að vera ákveðinn í að snúa henni og sannfæra hinn aðilann að hann hafi rangt fyrir sér,“ segir hann brattur.
Þurfti aðeins nokkra bjóra til að finna rétta nafnið á fyrirtækið
Davíð vann í eitt ár hjá Zik Zak og líkaði það vel en segist hafa áttað sig á því að ári liðnu að hann gæti alveg gert þetta sjálfur. Í mars árið 2006 sló hann á þráðinn til Árna vinar síns og bað hann um að ræða við sig. „Við fórum á barinn, ég Árni og Hreinn Beck og það sem gekk illa að finna nafnið. Það þurfti nokkra bjóra en við enduðum á að skíra fyrirtækið Mystery Island.“ Framleiðslufyrirtækið, sem í dag heitir einfaldlega Mystery Productions, varð að veruleika eftir örlagaríka ferð félaganna á barinn og það hefur verið nóg að gera síðan. Þeir voru þó ungir og barnalegir í fyrstu á að líta og þrátt fyrir gott gengi tók það fólk tíma að átta sig á að þessum strákslegu ungu mönnum væri alvara.
„Við vorum pjakkar og enginn tók mark á okkur“
Valdís kom heim eftir að hafa verið að vinna að erlendis í erfiðu verkefni þar sem allir voru fávitar að hennar sögn. Hún sagði við son sinn að hún vildi gera bíómynd um sveitabrúðkaup. „Ertu með handrit?“ spurði Davíð móður sína þá og hún svaraði því neitandi. Hann spurði þá hvort hún ætlaði að skrifa handrit og svarið var aftur nei. „Við hóuðum í Vesturport leikhópinn og mamma lýsti fyrir þeim hugmyndinni um þetta brúðkaup sem átti að vera óvissuferð. Engin samtöl voru skrifuð heldur var sagan af ferðalaginu rakin og svo púsluðum við þessu saman, leikararnir fengu að búa til sína karaktera frá grunni.“
Kvikmyndin var að miklu leyti unnin í spuna og sá Valdís sjálf um að leikstýra henni. Meðan á ferðalaginu stóð laumaði hún litlum leyndarmálum að karakterunum sem hún plantaði í gegnum myndina og kom það mótleikurum þeirra oft í opna skjöldu þegar karakterinn sem þau léku á móti sakaði þau til dæmis um framhjáhald eða annað ódæði sem leikararnir vissu ekki að þeir væru með á samviskunni. „Leikurunum fannst þetta rosalega gaman, þetta var rosalega organískt og það var góð orka í ferlinu og skemmtilegt,“ segir Davíð.
Sveitabrúðkaup varð loksins tilbúið eftir erfiðar klukkustundir hjá Valdísi í klippiherberginu. Rataði hún meðal annars á Toronto kvikmyndahátíðina þangað sem Davíð fylgdi henni sjálfur ásamt Antoni og Hreini. „Við vorum þarna pjakkar og enginn tók mark á okkur,“ rifjar hann upp og hlær. „Manneskjan sem var sett á okkur leit á sig sem barnapíu sem sagði: Æ ég er að passa son hennar Valdísar.“
„Krakkaskíturinn er langt á undan okkur“
Það tók Davíð nokkur ár að öðlast virðingu fyrir fólkinu í bransanum sem hélt lengi vel að hann væri bara að fylgja móður sinni í vinnuna. Í Suður-Kóreu lenti hann í svipuðu atviki þegar hann, þá tuttugu og fimm ára, sat með tveimur öðrum framleiðendum sem voru í kringum þrítugt og fertugt. „Sá eldri segir: Ég er svo stoltur að hafa náð að framleiða mína fyrstu mynd fertugur. Þá sagði hinn: Já ég líka, ég er þrjátíu og fjögurra ára.“
Davíð sat þögull við borðið og blandaði sér ekki í samræðurnar fyrr en mennirnir spyrja hann hvað hann sé að gera og hvort ég sé leikari. „Ég er með mömmu, hún er hérna með mynd sem ég framleiddi,“ svaraði Davíð þá. Þeir spyrja hann þá hvað hann sé gamall og Davíð svaraði sannleikanum samkvæmt að hann væri tuttugu og fimm ára. „Þá sneru þeir frá mér,“ segir hann og hlær. „Krakkaskíturinn langt á undan okkur að gera mynd hérna.“
Ekkert skemmtilegra en að leikstýra Broti
Í kvikmyndinni Bakk fékk Davíð reynslu af því að vera með tvo hatta eða bæði hlutverk framleiðandans og leikstjórans en hann leikstýrði kvikmyndinni ásamt Gunnari Hanssyni. Í spennuþáttunum Brot sem nú eru sýndir á RÚV með Nínu Dögg Filippusdóttur og Birni Thors í aðalhlutverkum og framleiddir af TrueNorth, Mystery, RÚV og Netflix, fékk hann einnig kærkomið tækifæri til að leikstýra en hann leikstýrði tveimur þáttum í seríunni ásamt því að framleiða. „Það er það skemmtilegasta sem ég hef gert,“ segir hann ákveðinn en þættirnir sækja innblástur í svokallaða „nordic noir“ hefð og fjalla um rannsókn á morðum á Íslandi. Handritið skrifuðu Margrét Örnólfsdóttir, Óttar Norðfjörð, Ottó Geir Borg og Mikael Torfason en með leikstjórarnir eru þrír, þau Davíð, Þórður og Þóra Hilmarsdóttir. „Ég lít ekki á leikstjórn sem vinnu heldur finnst mér svo gaman að takast á við þetta,“ segir hann um reynsluna. „Margir hafa spurt mig hvort það hafi verið erfitt og skrýtið en mér fannst það ekki því hópurinn er alltaf að vinna að sama markmiðinu. Ég er líka kreatívur og vil hafa þetta eins gott og hægt er.“ Verkefnið er sérstaklega umfangsmikið og í fyrsta skipti sem Netflix tekur þátt í framleiðslu á íslensku verkefni.
Grét úr hlátri á frumsýningunni glaður í hjartanu
Sem fyrr segir var nýverið frumsýnd kvikmyndin Gullregn sem Mystery framleiðir einnig og byggist hún á samnefndu leikriti sem sýnt var í Borgarleikhúsinu 2013 og hlaut frábærar viðtökur. Þó að þeir sem hafi séð leikritið ættu að kannast vel við söguna þá er heilmiklu bætt við í myndinni og sagan stækkuð. Það er Ragnar Bragason leikstýrir myndinni. Davíð sat sjálfur í salnum og horfði á myndina á frumsýningunni en það var í fyrsta sinn sem hann gerir það á sýningu og nýtur myndarinnar með öðrum áhorfendum. „Þegar við frumsýnum hef ég oft séð myndina svona fimmtíu sinnum svo við Árni löbbum vanalega út en komum svo inn aftur að sýningu lokinni. Þarna ákvað ég hins vegar að sitja inni því ég var sjálfur ekki búinn að sjá lokaútgáfuna,“ segir Davíð sem var sérlega ánægður með afraksturinn og viðbrögð áhorfenda í salnum. „Þetta var svakalega gaman. Ég grét úr hlátri og fattaði að ég væri að skemmta mér konunglega. Það var hlegið ótrúlega mikið og eiginlega meira en ég bjóst við og það kom mér rosalega skemmtilega á óvart.“
Þegar Davíð vaknaði morguninn eftir frumsýninguna sendi hann leikstjóra myndarinnar skilaboð þess efnis að hann væri í skýjunum. „Ég sagði: Raggi, ég er bara glaður í hjartanu. Hann getur verið ótrúlega stoltur af þessu.“
Þrjár bíómyndir og framhald af Föngum í pípunum
Fram undan hjá Davíð er að hvíla sig aðeins eftir heilmikla törn en hann segist þó vera með nokkrar hugmyndir í kollinum sem hann hlakkar til að vinna áfram enda er hann enn óþolinmóði sonur móðir sinnar sem nýtur sín best þegar hann hefur nóg fyrir stafni. „Ég held við séum með tólf verkefni í þróun og fjögur þeirra gætu farið af stað í ár, þrjár bíómyndir og svo erum við enn að vinna að því að fjármagna aðra seríu af Föngum,“ segir framleiðandinn spenntur að lokum.
Rætt var við Davíð Óskar Ólafsson í Segðu mér á Rás 1.