„Sólmyrkvinn byrjar og verður í tvær klukkustundir. En almyrkvinn sjálfur þegar tunglið fyllir alveg upp í sólarskífuna mun ekki endast nema í tvær mínútur og þá verður myrkur og við sjáum sólarkórónuna í kringum myrkvann sjálfan,“ segir Kári Helgason stjarneðlisfræðingur um almyrkva á sólu sem verður sýnilegur hér á landi eftir sjö ár. Almyrkvi sást vel í Chile í gærkvöldi.

Fjöldi fólks fylgdist með almyrkva á sólu sem sást vel í Chile og Argentínu um klukkan sjö í gærkvöldi að íslenskum tíma. Hér á landi varð síðast almyrkvi á sólu 1954. 

„Næsti almyrkvi á Íslandi verður 2026 12. ágúst á mjög góðum tíma. Þá er best að vera einhvers staðar á Snæfellsnesi eða Vestfjörðum þar sem hann mun sjást langbest. Sólmyrkvi gerist þegar tunglið gengur fyrir sólina frá okkur séð, þegar jörðin, tunglið og sólin eru öll í beinni línu,“ segir Kári Helgason stjarneðlisfræðingur. Nánar má lesa um sólmyrkva á Stjörnufræðivefnum

Myrkvinn verður í hámarki yfir hafinu skammt vestan Látrabjargs kl. 17:45

„Sólmyrkvinn byrjar og verður í tvær klukkustundir. En almyrkvinn sjálfur þegar tunglið fyllir alveg upp í sólarskífuna mun ekki endast nema í tvær mínútur og þá verður myrkur og við sjáum sólarkórónuna í kringum myrkvann sjálfan,“ segir Kári.

Síðasti sólmyrkvi sem var sýnilegur hér á landi var 20. mars 2015.

„Fyrir fjórum árum sást deildarmyrkvi þar sem nánast 98 prósent af sólinni var myrkvuð af tunglinu en almyrkvinn átti sér stað aðeins út af Austfjörðum, sem sagt úti á sjó,“ segir Kári.

Þá seldust upp sólmyrkvagleraugu á landinu. Fólk hefur sjö ár til að finna sér gleraugu fyrir almyrkvann.

Við látum fylgja hér með viðtalið við Kára nokkurn veginn í heild sinni þar sem fréttamaður uppljóstrar fávisku sinni um sólmyrkva.