„Ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða á næstu 18 mánuðum,“ segir Karl Ágúst Þorbergsson í fimmta pistli sínum um yfirvofandi heimsendi, „verður jörðin lítið annað en risastór mannlaus innsetning þar sem eyrnatappar, blautþurrkur með sítrónuilmi, sokkahaldarar og annað plastdrasl flýtur um út í hið óendanlega.“
Karl Ágúst Þorbergsson skrifar:
Við munum öll deyja. Öll. Við deyjum öll. Við munum öll deyja.
Þetta er staðreynd. Tiltölulega einföld staðreynd sem hefur verið innbyggð í tilvist okkar frá upphafi. Þetta vitum við. Við fæðumst og við deyjum. Við vitum að við munum öll deyja. Kæri lesandi, þú ert dauðans matur.
Eins og ég hef reifað á síðustu vikum hefur þessi staðreynd tekið óþægilegum stakkaskiptum á síðustu áratugum þar sem sá möguleiki er fyrir hendi að endalok tilvistar okkar sem tegundar séu nær en við kærum okkur um. Frá iðnbyltingu hefur samband okkar við náttúruna einkennst af gerræðislegum drottnunartilburðum, við höfum skilgreint okkur út úr mengi náttúrunnar, við erum ekki hluti af henni, við erum okkar eigin mengi. En komið hefur í ljós að þetta viðhorf í bland við lífstíl okkar undir oki nýfrjálshyggju kapítalisma og að því er virðist botnlausri dýrkun á neyslu og einstaklingshyggju, er skaðlegt, svo skaðlegt að endalok tilvistar okkar eru ekki lengur efni vísindaskáldsagna heldur óma daglega hrikalegar spár vísindamanna í fyrirsögnum allra helstu fréttamiðla heims. Önnur mannskaðahitabylgja yfirvofandi í Evrópu, heitasti júní frá upphafi mælinga, uppskerubrestur þarna, flóð og fellibyljir hér, árið 2018 það heitasta frá upphafi, hlýrra en metárið 2017 sem var hlýrra en metárið 2016, sem var hlýrra en metárið 2015 sem var hlýrra en metárið 2014 o.s.frv. o.s.frv.
Eitt og hálft ár til stefnu
Við erum orsakavaldur yfirstandandi loftslagskreppu og hamfarahlýnunar. Þetta er okkur að kenna. Við berum ábyrgð. Við berum ábyrgð á aukinni tíðni og styrkleika flóða og fellibylja, á langvarandi þurrkatímabilum og ofsafenginni rigningu, á skriðuföllum, á endurteknum hitabylgjum og uppskerubrestum, á stigvaxandi mengun, á aukinni tíðni hjarta- og æðasjúkdóma og krabbameina, á loftslagsflóttamönnum, á hröðustu útrýmingu lífs á jörðinni frá upphafi. Við. Og ef við breytum ekki um stefnu og segjum skilið við óttablandna dýrkun okkar á jarðefnaeldsneyti og þeirri sturluðu heimsmynd neyslu og græðgi sem sú dýrkun hefur í för með sér, þá munum við öll, sem tegund, sannarlega deyja. Í óþægilega nálægri framtíð. Samkvæmt Parísarsáttmálanum, sem margir hverjir telja fullmikið bjartsýnisplagg, þá höfum við 11 ár til að rétta úr kútnum. Eða eiginlega 10 og hálft talið frá deginum í dag. Reyndar þá birtist í síðustu viku yfirlýsing frá virtustu vísindamönnum á sviði loftslagsmála. Í henni kom fram að við höfum aðeins 18 mánuði til stefnu. Eitt og hálft ár.
En þetta vitum við. Og höfum vitað í töluverðan tíma núna. Það hefur verið fjallað um loftslagsvandann alveg síðan á 19. öldinni. Listamenn hafa svo sannarlega ekki látið sitt eftir liggja í þeirri umræðu og ætla ég mér í þessum pistli að fjalla stuttlega um viðbrögð nokkurra listamanna.
Heimur þar sem tilgangsleysið er algjört
Á undanförum áratugum hafa verk sem takast á við ástand loftslagsmála og samband manns og náttúru í því samhengi verið mjög áberandi. Heilu sýningarnar hafa verið tileinkaðar loftslagsmálum og er yfirþema tvíæringsins í Feneyjum í ár til að mynda tileinkað loftslagsvánni og sambandi manns og náttúru. Sýningin ber yfirskriftina May You Live in Interesting Times, eða Megir þú lifa áhugaverða tíma, og auðvelt að greina beinar skírskotanir til samtímaástandsins þar sem maðurinn á í vægast sagt þversagnakenndu og um leið áhugaverðu sambandi við umhverfi sitt og náttúruna í heild.
Sigurvegari hátíðarinnar í ár er gjörningahópurinn Neon Realism frá Litáen en skáli þeirra var útbúinn sem sólarströnd þar sem fólk lá í makindum og sólaði sig en sönglaði um leið líbrettóa um eigin tilvist og hversdagsleg vandamál. Verkið hefur verið túlkað sem beitt gagnrýni á viðhorf okkar til hamfarahlýnunar og hversu upptekin við erum af neysluhyggju og dýrkun á kapítalískri hugmyndafræði. Sjötíu mínútna langur gjörningurinn endurtekur sig nánast út í hið óendanlega og gefur manni tilfinningu fyrir því að sama hversu slæmt ástandið getur orðið þá viljum við bara hafa það næs á sólarströnd og pæla í því hvort að við séu að brenna eða ekki.
Íslenskir listamenn hafa líka látið sig málin varða. Það væri til dæmis hægt að skoða verk Ragnars Kjartanssonar út frá þessu þema. Í þeim birtist okkur heimur þar sem tilgangsleysið er nánast algjört, þar sem maðurinn lifir í eins konar tómi tilveru sinnar, ráfandi stefnulaust áfram veginn, eitthvert út í buskann. Auðvelt væri að lesa verk hans The End sem sýnt var á Feneyjatvíæringnum árið 2009 út frá forsendum loftslagskreppu. Tveir karlmenn í yfirgefinni og umflotinni villu í Feneyjum að drekka bjór og mála sjálfsmyndir í nostalgískri þrá eftir rómantík fortíðarinnar. Einnig er gjörningurinn Ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða Framsókn, því ef þú gerir það, þá fer allt til helvítis beintengdur ástæðum hamfarahlýnunar á Íslandi.
Framleitt fyrir ruslatunnuna
Hildigunnur Birgisdóttir og Anna Hrund Másdóttir hafa báðar tekist á við fegurðina sem felst í hinu smáa, í hinu smáa fjöldaframleidda plastdrasli sem kaffærir allt umhverfi okkar um þessar mundir og er eins og óendanlegir minnisvarðar menningar samtímans. Á sýningu Hildigunnar, Universal Sugar, í febrúar síðastliðnum var til að mynda að finna úrval af fánýtum hversdagshlutum á borð við frönskukrydd í plastumbúðum, blautþurrkur með sítrónuilmi, plastpoka og ýmsa aðra hluti og umbúðir. Með því að setja þessa hluti á stall er Hildigunnur að vekja athygli okkar á þeim og því framleiðslu- og hönnunarferli sem liggur að baki þeim. Lítill plasthanki sem heldur sokkapörum uppi til þess að gera þá meira aðlaðandi fyrir okkur kaupendur eru t.d. framleiddir í tonnavís og bendir Hildigunnur á að við verðum að kunna að meta fegurð þeirra, annars eru þeir fullkomlega tilganglausir. Þeir eru náttúrulega fullkomlega tilgangslausir, en þeir, eins og svo margt annað, eru framleiddir nánast í þeim eina tilgangi að enda í ruslinu.
Anna Hrund nálgast hversdagslega hluti á sambærilegan en þó um leið ólíkan hátt. Hún hefur t.d. búið til stóra skúlptúra og prentverk þar sem fegurð hins hversdagslega eyrnatappa er dregin fram með því að stækka hann upp margfalt. Í verkum Önnu er öllu meiri leikur en í verkum Hildigunnar, hún býr til umhverfi þar sem leikið er með ímyndunarafl áhorfandans í gegnum tilbúið landslag úr ólíkum plastefnum eða með því að setja samasemmerki milli hversdagslegra hluta eins og t.d. dórítosflögu og badmintonflugu.
Tónninn í verkum Bryndísar Snæbjörnsdóttur er öllu dramatískari. Hún vinnu verk sín í nánu samstarfi við Mark Wilson og leggja þau áherslu á að skoða möguleika listarinnar til tjáningar á þeim óreiðukenndu tímum sem við lifum á. Verk þeirra eru oftar en ekki þvert á miðla og tengja saman myndlist og fræðigreinar, svo sem náttúrufræði, sagnfræði og félagsfræði, og byggja á mikilli og ítarlegri rannsóknarvinnu. Segja má að kjarni verka þeirra sé nátengdur sambandi manns og náttúru og er um leið eins konar endurspelgun á birtingarmyndum afstöðu okkar mannanna til hinnar óæðri náttúru. Í verkinu Feral Attraction skoða þau hvernig samband okkar Íslendinga við náttúru birtist í því þegar flokki kinda sem höfðu lifað villtar á Vestfjörðum í töluverðan tíma er smalað.
Samhengi hins mannlega ástands
Árið 2009 var þessum kindum smalað saman og slátrað. Ekki var dvalið við og rannsakað hvernig þessar kindur höfðu breyst með náttúrunni, en þær höfðu þróað með sér auðsjáanlega og nýja eiginleika. Nei, óþarfi að pæla í þessu, bara slátra öllu safninu. Verkið var eins konar innsetning sem samanstóð af ljósmyndaverkum, skúlptúrum og rannsóknarvinnunni. Í verkinu Nanoq: flat out and bluesome eru Bryndís og Mark á svipuðum slóðum en þar tóku þau saman og skráðu alla uppstoppaða ísbirni sem til eru á Bretlandi og reyndu meðal annars að komast að því hvenær dýrin voru drepin og í hvaða tilgangi. Sýningin samanstóð af fjölda uppstoppaðra ísbjarna auk fræðilegrar rannsóknarvinnu og ljósmyndaverka. Bryndís og Mark hlutu fyrr á þessu ári stóran 3 ára styrk til áframhaldandi listrannsókna tengdum ísbjörnum og í þetta skiptið á að beina sjónum að komum bjarnanna til Íslands og afstöðu samfélagsins til þeirra. Verður spennandi að sjá hvernig þeirri rannsókn fram vindur.
Þó að ég hafi hér aðeins nefnt örfá dæmi af fjölmörgum um það hvernig listamenn reyna að takast á við þann vanda sem við stöndum frammi fyrir ætla ég að láta staðar numið. Það væri auðvelt að tala viðstöðulaust í lengri um verk listamanna sem reyna að birta okkur samhengi hins mannlega ástands og loftslagshamfara og gefa okkur annað sjónarhorn á viðhorf okkar til náttúrunnar eða afleiðinga gjörða okkar, en ég læt öðrum eftir það verkefni. Ljóst er að enginn skortur verður á tilraunum listamanna til að takast á við loftslagsþemað næstu árin.
En hvað sem því líður þá verða listunnendur eða listamenn ekki margir í framtíðinni ef fram heldur sem horfir. Stjórnmálamenn samtímans bera þunga byrði því þeirra er að ákveða af eða á. Í ákvörðunum þeirra í dag felst loforð um möguleika tilvistar okkar í framtíðinni og hvort okkur sé raunverulega umhugað um framtíð barna okkar og barnabarna. Vísindin eru skýr og afdráttarlaus, hamfarahlýnun af mannavöldum þarf að stöðva ætlum við okkur að komast af á byggilegri jörð. Það er að sama skapi algjörlega ljóst hvað þarf að gera til að takmarka skaðann og að stjórnmálamenn þurfa að taka af skarið og axla ábyrgð, bæði á afleiðingum menningar okkar í fortíð, og einnig á þeim ákvörðunum sem teknar verða á næstu vikum, mánuðum og árum. Ef stjórnmálamenn samtímans halda áfram að láta undan þrýstingi hagsmunaaðila sem vilja viðhalda menningu byggðri á ofnotkun á jarðefnaeldsneyti, auðlindaarðráni og nýfrjálshyggju kapítalisma, er nokkuð ljóst hvert stefnir. Ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða til að snúa þróuninni við, á næstu 18 mánuðum nota bene, þá verður jörðin lítið annað en risastór mannlaus innsetning þar sem eyrnatappar, blautþurrkur með sítrónuilmi, sokkahaldarar og annað plastdrasl flýtur um út í hið óendanlega.
Að lokum legg ég til að kapítalisminn verði lagður í rúst, því ef það verður ekki gert hið snarasta munum við öll, sem tegund, deyja.