Í fyrsta pistlinum í fjögurra pistla seríu kryfur Karl Ágúst Þorbergsson, lektor í sviðslistum, firringuna í nútímasamfélagi. Hann fjallar um hvernig maðurinn hefur beislað náttúruna og aftengst henni með þeim afleiðingum að hún snýst gegn honum.
Karl Ágúst Þorbergsson skrifar:
Öll. Við deyjum öll. Við munum öll deyja. Þetta er staðreynd. Tiltölulega einföld staðreynd sem hefur verið innbyggð í tilvist okkar frá upphafi. Þetta vitum við. Við fæðumst og við deyjum. Við vitum að við munum öll deyja. Kæri lesandi, þú ert dauðans matur.
Hingað til hefur þessi staðreynd verið nokkuð eðlileg, órjúfanlegur þáttur í hringrás lífs á jörðinni. Allt líf skal fölna og falla, deyja, til þess að lifa um eilífð alla kvað Shakespeare. Ekkert er endanlegt, allt er breytingum háð, vitund okkar hverfur inn í eilífðina og svo framvegis.
Það er notalegt í heimi manneskjunnar
Á síðustu árum og áratugum og árhundruðum hefur hins vegar orðið ákveðin breyting á þessu ferli hvað varðar okkur manneskjurnar. Við höfum slitið okkur frá hinni eðlilegu hringrás og nánast tekið ákvörðun um að hún eigi ekki við, ekki í okkar tilfelli. Við erum óháð öflum náttúrunnar, búum yfir krafti til að beisla hana og skilgreina okkur út úr jöfnunni. Náttúran er úti, tilheyrir jaðrinum, þar sem hið villta og óspillta ríkir. En hér inni, í heimi mannskjunnar, er hlýtt og notalegt. Hér ríkir siðmenningin, hið tamda og hið stýrða. Við erum handan náttúrunnar.
Það er þó ekki þar með sagt að við séum orðin ódauðleg. Vissulega deyjum við öll ennþá, það er óumdaeilanleg staðreynd, en nú, sem aldrei fyrr, búum við yfir kröftum til að stýra þessu ferli að ákveðnu leyti. Læknavísindunum eigum við það að þakka að við getum tekist á við flókna sjúkdóma sem áður hefðu stráfellt okkur. Við lifum lengur, ungbarnadauði heyrir nánast sögunni til hér á landi, við erum meðvituð um virkni baktería og veira og getum tekist á við þær með sóttvörunum og sýklalyfjum. Aðstæður okkar og húsakostur hefur batnað til muna og svo framvegis og svo framvegis. Þeir hugmyndafræðilegu kraftar sem knúið hafa breytingar á samfélagsformgerðinni hafa að sama skapi ýtt undir vitsmunalega yfirburði okkar sem tegundar og skilgreint náttúruna frá okkur og út á jaðarinn.
Auðvelt er að horfa til baka, rýna í farveg sögunnar og hugsa með sér að síðustu 200 ár eða svo hafa verið eitt mesta hagsældarskeið í sögu mannskyns. Upplýsing og iðnbylting hafa haft í för með sér slíkar breytingar að gjörvallt mannkyn býr nú við betri kost að meðaltali en nokkurn tíma í sögu okkar sem tegundar.
Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.
Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.
Hvernig gat þetta gerst?
Svo kvað Steinn Steinarr árið 1942. Í miðri heimsstyrjöld. Í einum mesta harmleik siðmenningarinnar frá upphafi iðnbyltingar. Hvernig gat þetta gerst hjá tegund sem hefur tekið þvílíkri framþróun á síðustu áratugum? Og það í annað skiptið á tiltölulega stuttum tíma? En slíkir harmleikir þar sem tugir þúsunda láta lífið vegna sturlaðrar græðgi, hagsmuna og heimsku fárra heyra sögunni til, ekki satt? Einmitt núna lifum við á einum mestu friðar- og hagsaældartímum sögunnar.
Ákveðnir brestir hafa þó myndast í glansmynd okkar sem tegundar, draumurinn um ágæti þróunar okkar er hratt og örugglega að breytast í martröð þar sem við stöndum augliti til auglitis við „veruleikans köldu ró.“
Það er að renna upp fyrir okkur að það samfélagsform sem við höfum lagt okkur fram við að þróa og viðhalda frá upplýsingu er ekki alveg eins skothelt og það leit úr fyrir að vera. Sú hugmyndafræði sem við byggðum og byggjum enn allt okkar vestræna samfélag á hefur í för með sér ansi alvarlegar aukaverkanir. Fylgikvillar þeirra breytinga sem hafa átt sér stað í kjölfar þess að við skilgreindum okkur út úr jöfnu manns og náttúru er vægast sagt óhugnanlegar. Á sama tíma og við keppumst við hagsældina höfum við kallað yfir okkur sjálfstortímingu okkar sem tegundar. Það þýðir einfaldlega að við munum öll, sem tegund, deyja.
Skammlífasta tegund jarðar
Rofið í sambandi manns og náttúru er hratt og örugglega að birtast okkur. Framfarir á forsendum kapítalisma og einstaklingshyggju frá iðnbyltingu til dagsins í dag fela í sér tortímingu mannskyns. Þetta er ekki skoðun heldur vísindaleg staðreynd. Vestrænir lifnaðarhættir okkar og hegðun hafa kallað yfir okkur og aðra jarðarbúa slíkar hörmungar að við munum eiga fullt í fangi með að viðhalda mannkyninu sem tegund á næstu árum. Ekki í fjarlægri framtíð, heldur á komandi árum.
Lengi höfum við talið að við manneskjurnar séum þróaðasta tegund jarðar en það lítur út fyrir það að við verðum ein sú skammlífasta, ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða og algjörrar endurskoðunar á lifnaðarháttum okkar og sambandi manns og náttúru. Þetta er í meira lagi þversagnakennd staðreynd.
Sökudólgurinn er ekki hin vitsmunalega og vísindalega þróun mannsins á þessu tímabili. Sú bylting sem hefur átt sér stað í vísindum frá upplýsingu til dagsins í dag er hreint út sagt ótrúleg. Hún hefur gert okkur kleift að skilja til hlýtar aðstæður okkar og umhverfi og bætt lífsskilyrði til muna. Frá iðnbyltingu hafa vísindamenn að sama skapi verið að fjalla um hættulega þróun í loftslagsmálum og bent á að aukning koltvísýrings og annarra skaðlegra gróðurhúsalofttegunda komi í bakið á okkur þegar fram líða stundir. Sökudólgurinn er hinn hugmyndafræðilegi grunnur kapítalisma og gróðarhyggju sem hagnast fáum og kemur niður á okkur öllum. Vestrænn lifnarðarháttur okkar sem byggist á órakenndum falsmyndum kapítalisma og einstaklingshyggju er að drepa okkur. Stærstu viðgangsefni læknavísinda samtímans eru til að mynda lífsstílstengdir sjúkdómar sem eiga rætur sínar að rekja til þeirrar vestrænu samfélagsgerðar sem við höfum lagt allt kapp á að skapa og viðhalda á síðustu áratugum. Við erum ekki lengur að keppast við að kveða niður banvænar bakteríur eða veirur heldur berjast læknavísindin í bökkum við að takast á við gríðarlega aukningu á sykursýki, krabbameinum og hjartasjúkdómum, allt saman afleiðingar lífsstíls sem byggist á hreyfingarleysi og gegndarlausri ofneyslu á sykri og fitu.
Í stuttu máli má segja að sturluð græðgi, hagsmunir og heimska fárra eigi eftir að drepa okkur öll.
Þetta vitum við og höfum vitað í talsverðan tíma núna. Eins og við vitum að dauðinn er órjúfanlegur þáttur tilverunnar þá vitum við að við munum líklegast deyja vegna græðgi og heimsku hinna fáu og ríku, lífstíls okkar eða loftslagshamfara í kjölfar beggja. Það er kannski fyrst núna sem áhrif loftslagshamfara eru farin að síast inn þegar það er orðið hættulegt að grilla í sumarbústaðnum vegna mjög mikillar hættu á skógareldum í kjölfar brakandi þurrka. Það kemur hik á okkur þar sem vð stöndum sólbrunnin á pallinum andspænis gasgrillinu með ólíulegna kótilettuna í annarri og innfluttan bjór í hinni. En bara smá hik. Svo grillum við bara. „Business að usual.“ Tökum sénsinn.
Þversagnir
Þrátt fyrir vitneskju um afleiðingar þeirrar hugmyndafræði sem grundvallar samfélagsgerð okkar þá þráumst við við að gera eitthvað í málunum og koma í veg fyrir, eða í það minnsta takmarka, sjöttu og hröðustu útrýmingu lífs á jörðinni. Við berum ekki aðeins megin ábyrgðina heldur gætum vel orðið eitt fórnarlambanna. Á síðustu 30 árum, gullaldarárum nýfrjálshyggjunnar, hefur notkun á jarðefnaeldsneyti aukist gríðarlega með tilheyrandi toppum í hlýnun jarðar. Það, þrátt fyrir mikla vísindalega og gagnrýna umfjöllun um áhrif hennar, aukna meðvitund almennings og stjórnmálamanna og stigmagnandi alvarleika í yfirlýsingum í kjölfar ráðstefna Sameinuðu þjóðanna. Að þessu leyti er hegðun og samband okkar við náttúruna í meira lagi þversagnakennt.
Á næstu fjórum vikum mun ég fara nánar í það hvernig þessar þversagnir birtast okkur hér á Íslandi og hvernig hegðun okkar Íslendinga virðist vera nánast einsdæmi í heiminum, t.a.m. hvernig það er hægt að búa á landi sem stólar nær alfarið á náttúruna til tekjuöflunar en vinnur statt og stöðugt gegn henni á sama tíma. Fyrir mig sem listamann er slíkur fleygur í mannlegri hegðun hrein guðsgjöf og mun ég í lok þessara pistlaraðar fara í það hvernig listamenn hafa tekist á við afleiðingar og ástæður loftslagshamfara.
Að lokum legg ég til að kapítalisminn verði lagður í rúst.
Góðar stundir.