Í Hönnunarsafni Íslands stendur yfir sýningin Borgarlandslag. Þar hefur arkítektinn Paolo Gianfrancesco teflt kortum af fimmtíu höfuðborgum Evrópu saman við kort af stærstu borgum í ríkjum Bandaríkjanna.
„Við teljum að borgir vaxi bara eins og hver önnur lífvera,“ segir Gianfrancesco. „Svo er ekki. Winston Churchill var vanur að segja að við mótum borgir allt fram að því að borgin fer að móta okkur.“ Á sýningunni ber hann saman kort þar sem valdar upplýsingar eru dregnar fram, með það að augnmiði að fanga kjarna borgarlandslagsins.
„Ætlun mín með þessari sýningu var að reyna að koma á þöglu samtali milli fjarlægra og mjög ólíkra borga. Oft má í raun sjá hversu ólík munstrin eru. Rannsóknir mínir snerust um að hjálpa fólki að hugsa um hvernig borgir eru ólíkar og hvernig við erum ólík vegna borganna.“
„Gögnin sem þið hafið fyrir augum og eru dregin fram eru leiðarkerfin eða vegir, ferjur og brautarteinar.“ segir Gianfrancesco. „Og svo einnig sum landnýting, eins og til dæmis kirkjugarðar. Þegar ég kem til ókunnugrar borgar langar mig að vita hvar kirkjugarðarnir eru af því að þeir eru minning og þessir staðir eru nánast ósnertanlegir.“
Önnur landnýting sem vekur áhuga Gianfrancesco eru efnislegar hindranir. „Þar á ég við gjaldskylda vegi, hraðbrautir, vegi meira en tvær akreinar. Þetta eru auðvitað tól sem við notum til að tengjast en um leið vil ég að fólk hugsi um þá sem hindranir. Eins og Miklabraut, hún er efnisleg hindrun inni í hverfi. Í sumum af stærri borgum Evrópu hefur verið í gangi það sem ég kalla borgarsaumur. Færir arkitektar bródera saman aðliggjandi borgarhluta sem eru aðgreindir með hindrunum.“
Margar af lykilborgum Evrópu eiga það sameiginlegt að standa við fljót. Upphaflega var það til að verja borgina. Síðar risu borgir við árfarvegi útaf verslun og vöruflutningum. Iðnbyltingin gjörbylti hins vegar ásýnd borga, ekki síst tilkoma bílsins.
„Aðstæður hér í Reykjavík ráðast að sumu leyti af bílaumferð. Líti maður til eldri borgarhluta eins og Norðurmýrar og Vesturbæjar þá sést að þar er mjög þéttriðið en þegar farið er út lengra frá Reykjavík verða munstrin gleiðari og það má auðveldlega sjá að ökutækin ráða þar um. Öll kortin eru í sama skala. Reykjavík kemst næstum ekki fyrir á kortinu meðan 80 prósent Rómarborgar komast fyrir. Við erum að ræða um 140 þúsund manns á móti fjórum milljónum.“
Á sýningartímanum verður sex völdum borgum gert hátt undir höfði með sérstökum matarboðum. Þar munu íbúar á íslandi af erlendu bergi brotnir deila sögu sinni og fjalla um borg upprunalands síns í gegnum mat, tónlist og fleira.
„Í dag breytist heimurinn hratt. Mér hefði aldrei dottið í hug fyrir tuttugu árum að ég ætti eftir að búa á Íslandi. Ég held að við séum að venjast því að þótt þjóðir og landamæri séu enn við lýði þá er fólk á hreyfingu. Og þá ekki bara vegna ferðalaga heldur erum við á faraldsfæti draumanna vegna og ég tel að það geri borgir auðugri.“