Foreldrar sex ára drengs með einhverfu, sem var læstur í rútu í marga klukkutíma vegna mistaka hjá frístundaheimili Reykjavíkurborgar, segja að starfsmönnum hefði átt að vera ljóst að drengurinn væri týndur. Verkferlum hjá frístundaheimilinu hefur verið breytt eftir þetta. Málið er á borði lögreglu.

Vísir fjallaði fyrst um málið.

„Hvar er barnið mitt?“

Mikolaj Czerwonka er sex ára drengur með einhverfu. Hann byrjaði í fyrsta bekk í Klettaskóla á mánudag og í dagvistun í frístundaheimilinu Guluhlíð eftir skóla. Klettaskóli og Guluhlíð eru fyrir nemendur með sérþarfir.

Þegar Sylwia móðir Mikolaj kom að sækja hann í Guluhlíð á fimmtudaginn var hann hvergi að finna. Sylwia óttaðist allt það versta þegar í ljós kom að enginn vissi hvar Mikolaj væri niður kominn. „Hann hefði getað hafa hlaupið burt og slasað sig,“ segir Sylwia. „Þarna er klukkan að verða fimm, barnið er búið í skólanum klukkan hálf tvö. Hvar er barnið mitt?“

Læstur inni í rútu klukkutímum saman

Foreldrarnir hringdu sjálfir á lögregluna. Eftir um það bil hálftíma leit fannst Mikolaj litli, læstur inni í rútu á bílaplani rútufélagins Teits Jónassonar í Kópavogi, en félagið annast akstur með nemendur milli skóla og frístundar.

Það eru einungis um 350 metrar frá Klettaskóla að Guluhlíð eða um einnar mínútu akstur. Mikolaj litli var aftur á móti í meira en þrjár klukkustundir í rútunni. Hann fékk hvorki vott né þurrt allan tímann og gat enga björg sér veitt. Hann getur einungis tjáð sig með takmörkuðum hætti og hefur ekki getað sagt frá því sem gerðist þennan dag. Þegar hann fannst hafði hann pissað á sig og Michal faðir hans segir ljóst að hann hafði grátið. Hann hafi þó brosað þegar hann sá loks foreldra sína aftur, og læknisskoðun sýndi að hann var við góða heilsu.

Foreldrarnir segja mildi að ekki fór verr, en þau treysta sér ekki til að senda Mikolaj aftur á Guluhlíð. „Við vorum að velja þennan skóla og þessa frístund því að við héldum að við gætum treyst þeim, að hann væri allan daginn í góðum höndum. En strax á degi fjögur í skólanum þá gerist þetta,“ segir Michal, faðir Mikolaj. 

Á ekki og má ekki geta gerst

Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Kringlumýri sem rekur frístundaheimilið Guluhlíð, segir málið litið mjög alvarlegum augum. „Það sem gerðist þarna var það að það var starfsmaður sem fór ekki eftir öllu verklagi okkar eins og við vorum búin að leggja upp með, sem orsakaði það að það uppgötvast ekki að barnið sé ekki í starfi hjá okkur fyrr en í lok dags,“ segir Haraldur.

Michal gefur lítið fyrir þær útskýringar að einum starfsmanni sé um að kenna. Yfirmönnum og öðrum starfsmönnum hafi átt að vera ljóst að drengurinn væri týndur. Eftir þetta hefur verið farið yfir allt verklag Guluhlíðar. Nú er það á höndum minnst fjögurra mismunandi aðila að ganga úr skugga um að nemendur skili sér á réttan stað. „Þetta á ekki að geta gerst, þetta má ekki gerast og þess vegna erum við búin að fara í gegnum allt þetta verklag,“ segir Haraldur. 

Vona að enginn annar lendi í því sama

Málið er nú á borði lögreglunnar. Meðal annars er til athugunar hvert var ekið með drenginn, og hvort hann hafi verið um kyrrt í bílnum allan tímann.

Michal segir mikilvægast að þetta verði til þess að enginn þurfi að lenda í því sama og þau. „Okkur langar bara að þetta gerist ekki aftur, ekki bara fyrir okkur heldur fyrir allar fjölskyldur sem treysta frístundaheimilum til þess að sækja krakka eftir skóla,“ segir Michal.