Þess var minnst í Gamla Bíó í kvöld að tuttugu ár væru liðin frá því að Ágætis byrjun með Sigur Rós kom út. Platan hefur ítrekað verið kosin sú besta í íslenskri tónlistarsögu. Georg Holm sagði hljómsveitina síður en svo hætta þrátt fyrir að að aðeins hann og söngvarinn Jónsi væru einir eftir. „Við höfum alltaf sagt að við gerum þetta á meðan þetta er gaman.“

Rætt var við Kjartan og Georg í Kastljósi í kvöld. Þar voru þeir meðal annars spurðir út í skattsvikamálið sem vakið hefur mikla athygli en liðsmenn sveitarinnar hafa verið ákærðir fyrir skattsvik. 

Þeir voru þó hvorugir á því að það mál skyggði eitthvað á gleðina í kvöld.  „Þarna varð bara handvömm. Við réðum fólk til að sjá um þetta fyrir okkur og pældum ekkert mikið í því sjálfir og gerum það ekki enn. Þarna varð bara einhverjum á í messunni.“ 

Georg sagði að því bæri að fagna að tuttugu ár væru liðin frá Ágætis byrjun. „Þetta er bara búið að vera ævintýri, tóm hamingja og skemmtilegt. En þetta er líka búið að vera lífið okkar og  verið upp og niður eins og hjá öðrum,“ bætti Kjartan við.