Fögnuður Vals var mikill og ósvikinn í leikslok þegar liðið vann 94-70 sigur á Stjörnunni í úrslitaleik bikarkeppni kvenna í körfubolta í dag. Með sigrinum skrifar liðið sig í sögubækurnar hjá Hlíðarendastórveldinu.

„Við erum bikarmeistarar sko. Það er ekki hægt að líða betur en akkúrat núna,“ sagði Helena Sverrisdóttir sem var ásamt Guðbjörgu systur sinni í viðtali við RÚV eftir leik. Helena fór mikinn í leiknum en hún skoraði 31 stig.

Darri Freyr Atlason þjálfari Vals var að vonum gríðarlega ánægður með sínar konu eftir leik.
„Mikið hrós til stelpnanna, hrós til Stjörnunnar líka þær gerðu okkur erfitt fyrir. Ártal á vegginn, maður,“ sagði Darri Freyr en með sigrinum kemst kvennalið Vals í körfubolta loks á vegginn umtalaða sem sést greinilega þegar gengið er inn í Valsheimilið að Hlíðarenda.

Pétur Már Sigurðsson þjálfari Stjörnunnar var ekki lengi að svara því á hverju þessi leikur strandaði. 

„Helenu Sverrisdóttur, það er bara erfitt að dekka hana.“