Ástralskur myndlistarmaður hefur undanfarnar vikur myndskreytt húsveggi á Ísafirði og í Hnífsdal.  Því litríkara því betra, segir íbúi á Ísafirði.

Hrifinn af veggjum í skjóli

Gafl á Grunnskólanum á Ísafirði er að taka á sig litríkari mynd þessa dagana. „Þessi veggur er góður. Það eru engir gluggar, hann er sléttur og það er heldur enginn vindur. Þar sem ég er frá Ástralíu þá er ég ekki mikið fyrir vindinn,“ segir Kyle Huges-Odgers, myndlistarmaður.

Málaði hálft hús í Hnífsdal

Kyle er með fjölskyldu sinni á Ísafirði í nokkrar vikur. Hann kom vestur síðasta haust, málaði tvo veggi og fannst hann þurfa að koma aftur. Nú er hann búinn að mála einn vegg, er með annan í vinnslu og málaði hálft hús í Hnífsdal. Gabríel Hólm Davíðsson býr í húsinu á móti. „Mér finnst þetta mjög flott, allavega mun skárra en það var,“ segir Gabríel. „Ég veit ekki hvort ég fái leið á þessu eða ekki en núna finnst mér þetta allt í lagi,“ segir hann.

Fljótari að mála húsvegg en lítið verk

Það fer eftir tíma og veðri hversu marga veggi Kyle málar. „Tíminn er undarlegur. Ef ég fæ gott veður þá tekur þetta þrjá til fjóra daga en ef ég væri á vinnustofunni minni að vinna að einhverju smáu þá tæki það líklega lengri tíma, maður nostrar við það. Það getur angrað mann að það tekur lengri tíma en að mála heila byggingu. En þannig er það,“ segir Kyle.

Vill að myndirnar passi við umhverfið

Kyle hefur málað veggi víða um heim. „Ég reyni að mála veggi þannig að þeir falli að umhverfi sínu og snúist ekki mikið um mig persónulega. Ég reyni að láta myndirnar vera þannig að þær tilheyri staðnum,“ segir Kyle.

Lífgar upp á bæinn

„Mér finnst þetta bara lífga uppá bæinn - að leyfa listamönnum að skreyta veggi sem eru ekki til prýði annars,“ segir Dóróthea Margrét Einarsdóttir, íbúi á Ísafirði. „Einmitt svona veggir sem eru tilgangalausir eru að fá líf - eins og þessi,“ segir Marta Sif Ólafsdóttir, sem á einnig heima Ísafirði. „Því litríkara því betra,“ bætir Björg Sveinbjörnsdóttir við. „Flestir hafa verið mjög jákvæðir, sem er gott,“ segir Kyle, „þar sem ég hverf á braut en þeir verða eftir.“