„Ef að rétthentur maður handleggsbrýtur sig á vinstri, er hann heppinn? Kannski getum við sagt það út frá því að við erum með almannavarnarkerfi sem er undirfjármagnað og ekki nógu vel sinnt að mínu mati að þá kannski að því leyti vorum við heppin að ekki fór verr,“ segir, Þór Þorsteinsson, formaður Landsbjargar í Silfrinu, spurður um það hvort við vorum heppin að ekki fór verr í fárviðrinu í vikunni.

Undirbúningur hefði getað verið betri

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sé undirmönnuð og undirfjármögnuð. Þá vill hann meina að sveitarfélögin sinni ekki skyldum sínum þegar komi að almannavörnum. „Að mínu mati hefðum við getað verið mun betur undir þetta búin.“

„Veruleiki og tilvera okkar má ekki byggjast á heppni. Við þurfum allavegana að koma í veg fyrir það eins og við getum að það sé þannig,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Þór og Logi voru gestir Sigmars Guðmundssonar í Silfrinu í dag ásamt Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Byggðaójöfnuður í landinu

„Ég held að við séum trekk í trekk að sjá það að við erum alltaf að láta akkúrat eða tæplega það sem þarf í okkar innviði, sem gerir svo að verkum að afleiddur kostnaður af svona aðstæðum verður svo miklu meiri en ef við myndum bara gera hlutina almennilega frá byrjun,“ segir Logi. Þá sé byggðaójöfnuður í landinu „sem við finnum hressilega fyrir þegar hlutirnir verða með þessum hætti.“

„Ég hef haft áhyggjur af því að landsbyggðin og byggðirnar, að við höfum, það hefur bara verið þróun, ég er ekki að kenna neinum um, við erum búin að draga of úr kraftinum, mannaflanum, og þar með viðbragðinu á hverjum stað fyrir sig, það þarf ekki að kosta fjármuni, það er fyrst og fremst hvar fólkið er staðsett og starfar,“ segir Sigurður Ingi.

„Þessi tilfinning um öryggisleysi og að vera skilin eftir, hún er óbærileg og hún er hjá alltof mörgu fólki og það er það sem við verðum að taka á,“ bætir hann við. 

Greinilega þurfi varaafl

Undanfarna daga hefur verið gagnrýnt að varaafl skorti víða. Þórdís Kolbrún segir greinilega þörf á því að fjölga varaaflsstöðvum. „Svörin sem ég hef fengið eru á þá leið að þetta hefði ekki átt að geta gerst. Að með því að bæta innviði einhvers staðar sé óhætt að taka þetta varaafl í burtu. Það kemur í ljós að svo er ekki.“

„Við sjáum til að mynda þegar við horfum á Norðurland vestra og Vestfirði, þá verða Vestfirðir fyrir því sama en afleiðingarnar eru allt aðrar út af varaaflinu í Bolungarvík sem breytti öllu.

„Hvort sem við erum að horfa inn í Fjallabyggð eða Húnavatnssýslu eða hvað eða einstakar stofnanir þá gef ég mér það að menn muni fara mjög nákvæmt yfir þær áætlanir og gera þær breytingar sem þarf að gera og vera með varaafl þar sem þau hingað til hafa talið það ekki þurfa. Það greinilega þarf. Nú liggur það fyrir.“

Almannahagsmunir hljóti að vega þyngra

Sigurður Ingi segir að til séu dæmi um að að fólk, svo landeigendur sem þó ekki búa á svæðinu, einstaklingar og sveitarfélög, sem ekki deili áhyggjum þeirra sem þar búa, geti komið í veg fyrir framkvæmdir.

„Ég er ekki að gera lítið úr þeirra hagsmunum, en ég er bara að segja að ef sjónmengun eru einu hagsmunirnir eða umferð nálægt sumarbústaðnum mínum eru einu hagsmunirnir á móti hagsmunum heilla byggðarlaga þar sem líf og öryggi og afkoma er undir þá hljóta þeir almannahagsmunir að vega þyngra.“

Þórdís Kolbrún bætir við að kerfið sé einfaldlega of flókið í framkvæmd og tætingslegt og tímafrekt. Framkvæmdir Landsnets strandi ekki á fjármagni, heldur leyfisveitingum.  

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér í spilaranum að ofan.