Verkfall þeirra starfsmanna Reykjavíkurborgar, sem eru í Eflingu, myndi hafa mjög mikil áhrif, að sögn Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hófst í gær.

„Það hefði auðvitað mjög mikil áhrif. Ef við hefðum talað saman fyrir tíu dögum hefði ég verið mjög svartsýnn og eiginlega ekki getað sagt hvernig ég sæi þetta fyrir mér. Það sem hefur þrátt fyrir allt gerst núna eftir áramót er það sem að margir stórir samningar voru að bíða eftir var einhver gangur og niðurstaða í hinu stóra atriðinu sem Reykjavíkurborg hefur lagt áherslu á í þessari kjaralotu. Það er að ná samningum um útfærslu á styttingu vinnuvikunnar,“ sagði borgarstjóri í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Hvað gerist ef það verður verkfall. Verður leikskólum lokað? „Það er auðvitað verið að fara yfir það, já, ég reikna með því og það hefur veruleg áhrif á starfsemina. Það eru 1.600 manns, af þeim 9.000 sem vinna hjá borginni, hjá Eflingu, mikilvægt starfsfólk, samstarfsfólk okkar, þannig að verkföll eru auðvitað ekki góðar fréttir. Ég hefði þurft að láta segja mér það tvisvar síðasta sumar, eftir að nýbúið var að gera lífskjarasamningana, að það myndi koma til einhverra verkfalla í þessari lotu.“

Borgin er sammála því að lífskjarasamningar og innleiðing styttri vinnuviku liggi til grundvallar, segir Dagur. Hann kveðst ætla að leyfa sér að vera áfram bjartsýnn á að grunnurinn í lífskjarasamningunum og útfærsla á styttingu vinnuvikunnar verði stóru málin til úrfærslu í samningaviðræðunum.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar hefur sagt að þörf sé á mikilli leiðréttingu á kjörum félagsmanna sem starfa hjá borginni, bæði launakjörum og aðstæðum. Efling ætlar að kynna tilboð sitt til borgarinnar í dag á opnum fundi í Iðnó.