Forstjóri Heilsugæslunnar telur yfirvofandi verkföll BSRB hættuleg ofan í COVID-19 faraldur. Framkvæmdastjóri á Landspítala er á sama máli, verkföll geti ekki veirð langvarandi ofan í veirufaraldur. Komi til þeirra eigi biðlistar á Landspítala eftir að lengjast. Starfsemi fyrirtækja og stofnana um allt land skerðast í mars ef ekki næst að semja fyrir mánudag.

Hluti félagsmanna BSRB fer í verkfall tvo daga í senn vikulega og síðan ótímabundið um miðjan apríl ef ekki næst að semja. Hluti fer strax í ótímabundið verkfall 9. mars.

Ekki byrjuð að taka við óskum um undanþágur

Forsvarsfólk BSRB er ekki byrjað að taka við óskum um undanþágur utan þeirra sem þegar liggja fyrir samkvæmt lögum. Samkvæmt upplýsingum frá BSRB taka undanþágunefndirnar til starfa á föstudag.

Borgin og heilbrigðisstofnanir munu sækja um víðtækar undanþáguheimildir, sérstaklega í ljósi COVID-19 faraldursins. Heilbrigðisyfirvöld kalla eftir því að samkomulag náist áður en verkföllin skella á.

Starfsmannakeðjan þurfi að vera órofin

„Við erum fyrst og fremst að forðast útbreiðslu sjúkdómsins einmitt núna og verkföllin gætu haft áhrif á það. Það reynir á alla í okkar starfsmannakeðju, allir eru mikilvægir og keðjan þarf að vera órofin,“ segir Óskar Reykdalsson forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Eru verkföll núna beinlínis hættuleg? „Ég tel það vera já.“

Þrátt fyrir undanþágur verður mikil truflun á starfsemi Landspítala. Biðlistar eigi eftir að lengjast. „Ein af hverjum fjórum skurðstofum verður í virkni næstkomandi mánudag er sviðsmynd sem við horfum fram á. Við viljum hvetja samningsaðila til að semja áður en til verkfalla koma. Það er núna í gagni heimsfaraldur vegna covid veirunnar og við eiginlega sjáum ekki fram úr hvernig þetta verður ef þetta tvennt verður langvarandi á sama tíma,“ segir Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála.

Starfsemi skerðist

Fundað hefur verið stíft í kjaradeilunni, en verkfallsaðgerðir undirbúnar samhliða. Komi til þeirra er ljóst að áhrifin verða víðtæk.

Afgreiðsla hjá tollinum verður lokuð og einnig hjá skattinum. Fólk á þó ekki að lenda vandræðum með að skila skattframtali rafrænt. Skatturinn ætlar að halda úti símsvörun en ekki tollurinn. Vínbúðin þarf að loka tvo daga í viku. Sýslumaður mun ekki afgreiða beiðnir um vegabréf, þinglýsingu og ökuskírteini.

Ef verkfall BSRB bætist ofan á verkfall Eflingar ná þessi tvö verkföll til um 65 prósenta starfsfólks Reykjavíkurborgar. um 4400 starfsmenn Sameykis starfa hjá borginni, sem er nærri helmingur. 

Starfsemi stöðvast

Það þýðir að fleiri leikskólar loka alveg. Áhrif verkfalla á grunnskóla verða mikil; þar sem ekki verður þrifið er gert ráð fyrir að skólar loki alla jafna eftir fjóra til fimm daga.

Ekkert félagsstarf verður í boði fyrir aldraða og félagsmiðstöðvum lokað. Skammtímavistun fyrir fötluð börn mun loka. Ekki verður hætt að veita stuðningsþjónustu fyrir börn né fullorðna með fötlun.

Sundlaugar, skíðasvæði, fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, Ylströnd/Siglunes og Hitt húsið verður lokað. Ásamt listasöfnum. Vetrarþjónusta verður afar takmörkuð og bílastæðasjóður lokar.