7. júlí 2014 varð hrikalegt slys í skemmtigarðinum Terra Mítica á austurströnd Spánar, skammt frá Benidorm. Átján ára íslenskur drengur, Andri Freyr Sveinsson, losnaði úr rússíbana á ferð og lét lífið. Andri var í sumarfríi með föður sínum og stjúpu, fimm systkinum og vini. Fjölskyldan stendur enn í málarekstri við skemmtigarðinn, sem ekki hefur greitt bætur vegna slyssins.

Sveinn Sigfússon, faðir Andra, telur ýmsu hafa verið ábótavant í öryggismálum garðsins. Þótt þúsundir sæki garðinn daglega er til dæmis ekki sjúkrabíll tiltækur svo hann var 20-25 mínútur á leiðinni.

„Ég tel það ámælisvert að það skuli ekki vera sjúkrabíll í svona stórum garði. Ef krakki hefði fallið og misst útlim, þá hefði barninu blætt út á þessum tuttugu mínútum.

Þarna hlaupa um starfsmenn garðsins, meira og minna ráðvilltir, leitandi að einhverju. Það er komið með svona lítinn sjúkrakassa, sem opnast svona tvöfaldur, með einhverjum teygjubindum og plástrum.“

 

Tuttugu mínútum áður en Andri fór í ferðina örlagaríku í rússíbanann sem heitir Inferno, var gert neyðarstopp, því einum farþeganum fannst hann vera laus. Og það sem verra er – ekki hefur enn verið bætt úr merkingum um hámarksþyngd þótt því sé haldið fram að meginástæða slyssins hafi verið sú að Andri var of þungur. 

 

„Ég fékk senda mynd úr garðinum núna fyrir þremur vikum síðan. Þar kemur fram núna, jú, hámarkshæð, 1,96. En ekki hámarksþyngd. Tækið var þá nýopnað aftur, það var komið rúmt ár sem það var lokað. Dómari fer og skoðar tækið og gefur grænt ljós á að það sé opnað aftur. En ef þetta á að vera aðalorsakavaldurinn að hann hafi verið of þungur, og tækið er opnað án þess að vera bæði með vigt eða merki um það hvað þú mátt vera þungur, þá er náttúrulega verið að spila rússneska rúllettu með fólk í garðinum.“

 

Fjallað verður um þetta mál í Kastljósi í kvöld.