Cecilía Rán Rúnarsdóttir varð í byrjun mars yngsti markvörður A-landsliðanna í fótbolta þegar hún var í byrjunarliði Íslands gegn Norður-Írlandi á æfingamóti kvennalandsliðsins á Pintatar á Spáni. Cecilía, sem verður 17 ára í júlí, átti frábært tímabil með Fylki á síðasta ári en það var um leið hennar fyrsta tímabil í efstu deild á Íslandi.
Cecilía er fædd þann 26. júlí árið 2003 og verður því 17 ára um mitt sumar. Hún byrjaði ung að æfa fótbolta með Aftureldingu í Mosfellsbæ og tók upp markmannshanskana þar sem margar fótboltakonur hefja ferilinn; á pæjumótinu í Vestmannaeyjum.
„Ég byrjaði að æfa fótbolta þegar ég var fimm eða sex ára, þá byrjaði ég að mæta á æfingar. Svo fór ég í markið á pæjumótinu í Eyjum þegar ég var tíu ára. Þá meiddist einhver sem var í marki og ég ákvað bara að fara í markið og mér fannst geggjað í marki. Og þá var bara ekki aftur snúið eftir það. Svo fékk ég tækifærið hjá Júlla meistaraflokksþjálfara [hjá Aftureldingu] og ég verð honum bara ævinlega þakklát fyrir það að hafa tekið mig upp í meistaraflokk svona unga.“
Þakklát fyrir að fá tækifærið
Cecilía var aðeins þrettán ára þegar hún var kölluð inn á æfingar með meistaraflokki hjá Aftureldingu og þá spilaði hún sinn fyrsta meistaraflokksleik. Haustið 2018 gekk Cecilía svo til liðs við úrvalsdeildarlið Fylkis. Hún átti frábæra leiktíð með Fylkiskonum í fyrra og var hún valin besti markvörður deildarinnar og í lið ársins.
„Það eru ekki allir sem myndu gefa svona ungum markmanni séns. Ég var ekki með neina reynslu fyrir þetta tímabil nema kannski smá með Aftureldingu,“ segir Cecilía.
Cecilía hefur æft undir leiðsögn Þorsteins Magnússonar, markmannsþjálfara, undanfarin ár en Þorsteinn hitti Cecilíu fyrst fyrir um fjórum árum, þegar hún var tólf ára. „Hún kom upp á Akranes í markmannsskóla KSÍ og ég horfði á hana og hún var svolítil klunnaleg og slánaleg. En það var eitthvað við hana. Ég fer og tala við hana: „Veistu hvað þú ert góð?“ og hún sagði nei. Ég sagði: „Bara að láta þig vita, þú ert góð. Hérna er nafnspjaldið mitt. Láttu pabba þinn tala við mig,“ og daginn eftir hringdi pabbi hennar. Rest is history,“ segir Þorsteinn.
16 ára í A-landsliðinu
Frammistaða Cecilíu með Fylki síðasta sumar varð til þess að hún var valin í öll þau landslið sem hún var gjaldgeng í og þá fékk hún líka kallið í A-landsliðið og spilaði sinn fyrsta A-landsleik í byrjun mars, gegn Norður-Írlandi á Pinatar Cup á Spáni.
„Já já, það er ótrúlega mikill heiður að hafa verið valin í til dæmis A-landsliðið í fyrsta sinn og fengið að hafa spilað fyrsta U-19 landsleikinn minn og farið í fullt af ferðum með U-17. Mér finnst þetta vera viðurkenning fyrir mitt starf og það sem ég hef lagt á mig og minn metnað. En það skiptir mig ekki miklu máli að vera valin í lið ársins, bara það að hafa átt gott tímabil með Fylki. Fylkir átti bara fínt tímabil, undanúrslit í bikar og héldum okkur uppi í deildinni sem var bara okkar markmið. Það var bara geggjað. Ég er ótrúlega þakklát fyrir það að hafa fengið að upplifa að vera í U-17, U-19 og svo fá að fara með A-landsliðinu og sjá umhverfið og hvernig umhverfið breytist og verður fagmannlegra því hærra sem maður fer.“
Aðeins á undan áætlun
Hún segir að markmiðið hafi alltaf verið að ná langt en að vera komin í A-landsliðið 16 ára hafi verið örlítið á undan áætlun. „Ég og markmannsþjálfarinn minn vorum með okkar markmið, þett var eitt af því en markmiðið kom kannski aðeins fyrr en við áttum von á. En þetta var það sem við stefndum alltaf á.“
Cecilía segir það mikilvægt að vera góð manneskja til að ná langt í lífinu og fyrirmyndirnar finnur hún víða. „Ég horfi ekki á einhvern einn heldur tek ég eiginleika úr góðum markmönnum til dæmis og leikmönnum, eins og til dæmis vinnuframlag Cristiano Ronaldo og hvernig markmaður Hope Solo var og Þóra Helgadóttir sem var í markinu með A-landsliðinu. Ég tek bestu eiginleikana úr persónunum og nýti mér það.“
Og Cecilía er ekki aðeins metnaðargjörn þegar kemur að fótboltanum. „Til þess að ná langt í íþróttum verður þú að vera hógvær og góð persóna. Þeir sem að eru hrokafullir ná ekki langt. Ég vil bara vera besta útgáfan sem ég get orðið, bæði sem manneskja og sem leikmaður, og mig langar að sjá hvert það kemur mér.“