Nærri 40 einstaklingar fengu ávísað tíu eða fleiri ráðlögðum dagskömmtum af ávanabindandi lyfjum í fyrra. Þá fengu 1.730 ávísað fleiri en þremur dagskömmtum. Andrés Magnússon, geðlæknir og yfirlæknir lyfjateymis Embættis landlæknis, segir nauðsynlegt að setja hömlur á ávísanir slíkra lyfja.

Andrés segir í samtali við Morgunútvarpið á Rás2 að það sé vitað mál að Íslendingar noti meira af ávanabindandi lyfjum, líkt og róandi eða sterkum verkjalyfjum. „Þetta er svipað og með reykingar. Það var vissulega mikill áróður og mikil fræðsla til að minnka reykingar en það voru líka settar alls konar reglur, það mátti ekki reykja inni, ekki í flugvélum og svo ekki á spítölum og svo framvegis. Það er spurning hvort ekki þurfi að fara þessa leið líka með ávanabindandi lyf. Það nægir ekki fræðsla og stöðugt eftirlit lækna, það er auðvitað hluti af því en það þarf líka að gera aðeins erfiðara að skrifa út ávanabindandi lyf. Til dæmis að það sé ekki nóg að hringja í lækni, það þurfi að mæta á staðinn.“

Andrés nefnir sem dæmi að hægt sé að endurnýja rafrænt lyfseðla sem áður hafa verið skrifaðir út í gegnum Heilsuvera.is. Sá möguleiki hafi verið afar umdeildur og læknar hafi kvartað yfir þessu. „Ég veit að heimilislæknar hafa talað um að þeir þurfi líka hjálp. Það megi ekki vera svona auðvelt aðgengi. Þeir sem hafa viljað hafa þetta inni sögðu „það er bara svo auðvelt að segja nei“, en það er ekkert alltaf auðvelt. Það krefst mikillar vinnu.“

Andrés segir að lyfseðlar geti hangið inni í kerfinu í töluverðan tíma. Fólk sem hefur snúið sig á ökkla fyrir hálfu ári og fengið vikuskammt af verkjalyfjum gæti endurnýjað lyfseðil sinn. „Bæði í sérlyfjaskránni og í klínískum leiðbeiningum er talað um að þessi lyf eigi að nota stutt. Þessi sterku verkjalyf eiga bara að notast við bráðum verkjum eins og til dæmis fótbroti eða einhverju slíku. Við vitum að brotið grær og verkurinn mun hverfa og þá er þetta fínt lyf. Allar leiðbeiningar, nema í algjörum undantekningartilvikum, segja að þetta eigi að nota til skamms tíma. Hér er að sjálfsögðu fólk með krabbamein eða lífslokasjúkdóma undanskilið.“

Mjög margir læknar og læknanemar hafi sagt við Andrés að það skorti leið til að segja “ég get ekki gefið þér af því að ég má það hreinlega ekki” í staðinn fyrir að viðkomandi þurfi að taka persónulega ákvörðun í hverju og einu máli. „Þetta getur verið mjög erfið staða í litlum plássum út á landi þar sem allir þekkja alla. Þetta eru tvenns konar mjög ólík hlutverk. Annars vegar ertu með lækni sem vill allt fyrir þig gera, þú ert með skjólstæðing þinn og þú ert verndari þessa sjúklings en svo allt í einu áttu að setja upp lögregluhattinn og segja „Nei. Þetta er ekki rétt hjá þér kona góð eða vinur minn, ég held að þú sért bara að verða háður þessum lyfjum.“ Þetta eru tvö mjög ólík hlutverk og ungum læknum, þeim finnst þetta svakalega erfitt.“ segir Andrés.