„Þessi ákvörðun veldur áhyggjum og ákveðnum vonbrigðum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um ákvörðun Donalds Trumps að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Þetta sé skref sem bandarísk stjórnvöld hafi ekki áður stigið og hafi reyndar verið hvött til að stíga ekki. Hann segir þó jákvætt að Trump heiti stuðningi við hvert það friðarsamkomulag sem Ísraelar og Palestínumenn komi sér saman um.
Guðlaugur Þór hefur verið á ferð og flugi í dag, var á fundi með utanríkisráðherrum aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins í Belgíu í dag og er nú kominn til Vínar, höfuðborgar Austurríkis. Eftir fundinn með utanríkisráðherrum Atlantshafsbandalagsins ræddi hann stöðu Jerúsalem við utanríkisráðherra Danmerkur og Noregs. Þá var Trump þó ekki búinn að gefa út tilkynningu sína en farið að spyrjast út hvað hann hygðist fyrir.
„Áhyggjurnar eru þessar að þetta geti haft neikvæð áhrif á friðarviðræðurnar sem er mjög mikilvægt að blása lífi í. Sömuleiðis er hætta á að upp úr sjóði þar sem stöðugleiki á þessu svæði er mjög viðkvæmur þó við vonum vitanlega að sú verði ekki raunin,“ sagði Guðlaugur Þór í Tíu fréttum RÚV í sjónvarpi.
Guðlaugur Þór sagði Trump þó hafa sagt ýmislegt jákvætt í tilkynningu sinni: sérstaklega að það væri á endanum hlutverk Palestínu og Ísraels að kveða upp úr sín á milli um framtíðarstöðu Jerúsalem og að Bandaríkin myndu styðja friðarviðræðurnar og hverja þá lausn sem Ísrael og Palestína komi sér saman um.
„Við höfum áhyggjur en við verðum bara að sjá hvað verður og hverju fram vindur. Íslensk stjórnvöld hvetja til stillingar og að ekki verði efnt til ofbeldis sem er mjög mikilvægt,“ sagði Guðlaugur Þór.