Vegagerðin ætlar að flýta viðhaldsverkefnum eins og malbikun fyrir tæpan hálfan milljarð króna á þessu ári. Þetta eru verkefni sem stóð til að fara í á næsta ári.
Ástæðan er sú að ljóst er að einhverjar nýframkvæmdir sem stóð til að fara í á þessu ári frestast og því var ákveðið að flytja til fjármagn og setja það í viðhald.
„Það mun þá fyrst og fremst vera notað í yfirlagnir, nýtt malbik enda mikil þörf á því. Þetta eru um 430 milljónir sem við erum að færa þarna á milli, þannig að við erum að flýta viðhaldsaðgerðum,“ segir Magnús Valur Jóhannsson framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar.
Að sögn Magnúsar Vals verður malbikað víða á landinu.
„Þetta er að lagmestu leyti umferðarmestu vegirnir hér á Suðurlandi, til dæmis í kringum Selfoss og uppi í Biskupstungum, Geysi til dæmis, þunginn er mest hérna á höfuðborgarsvæðinu þar sem umferðin er mest, við munum leggja meira yfir. Og út á Reykjanesið, þetta eru svona bútar hér og þar. Svo ætlum við að bæta í styrkingarverkefni, sem við köllum, að styrkja við bæði við Blönduós og á Þingvöllum.“
Þótt 430 milljónir séu dágóð upphæð, má nefna að venjulega fara um 6 milljarðar króna í viðhaldsverkefni. Segja má að peningarnir séu teknir að láni af því sem átti að fara í nýframkvæmdir sem gæti þýtt að það bitni á viðhaldinu á næsta ári. Magnús Valur segir tíðarfarið hafa verið mjög hagstætt fyrir malbikun og viðhald. Þótt engir mjög langir kaflar bætist núna við, sé verkefnið brýnt.
„Já, þótt meira væri, það var náttúrlega ljóst að viðhaldsþörfin er mun meiri heldur en við höfum fjármagn til að sinna, en sem betur fer er nú heldur að bætast í þannig að þetta stendur nú vonandi til bóta,“ segir Magnús Valur Jóhannsson.