Mikið mæðir á Hatara í Tel Aviv eftir undankeppnina en meðlimir njóta stuðnings sinna nánustu í stressinu sem því fylgir. Foreldrafélag Hatara er komið út til að styðja sitt fólk á meðan Ísland þýtur aftur upp veðbankana og er komið í fimmta sæti.

Ísland komst eftirminnilega áfram í Eurovision undankeppninni sem fram fór í Tel Aviv í gær, en Ísland var áttunda landið sem tilkynnt var í úrslitin margir landsmenn með öndina í hálsinum. Eftir frammistöðu Hatara í undankeppninni telja veðbankar enn líklegra að Hatrið komi til með að sigra lokakeppnina.

Það er ekki lítil pressa á meðlimum Hatara en hópurinn hefur verið eltur á röndum síðan þau komu til Tel Aviv. Nú hafa foreldrar Hatarameðlima bæst í hóp föruneytisins fríða hið ytra til að styðja við bakið á sínu fólki. Björg Magnúsdóttir ræddi við foreldrafélagið um reynslu þeirra af ferðalaginu og keppninni.

„Þetta er mjög mjög spennandi, einum of spennandi á tíðum,“ segir móðir Klemensar. Hún segir það algjörlega hlutlaust mat að Hatari muni fara alla leið í kepnninni. Foreldrar Klemensar segjast ekki óttast um hópinn þrátt fyrir að þau hafi leyft sér að vera róttæk og pólitísk í eldfimum aðstæðum. „Okkur finnst alveg dásamlegt að sjá hvað hópurinn er hugrakkur og stendur með sér,“ segir móðir hans. Faðir hans tekur í sama streng. „Það sem ég fíla er að þetta unga fólk er að taka afstöðu.“ Hann segir þau foreldrana þó ekki hafa áhrif á þau og þau séu ekki einu sinni spurð.

Þau segja Klemens afar músíkalskan sem barn svo það kemur þeim ekki á óvart að hann hafi fetað þessa braut. „Hann elskaði líka alltaf búninga svo honum finnst þetta ekki leiðinlegt.“ Þau segja að Klemens hafi aldrei grátið í búning og hann hafi til dæmis alltaf þurft að fara úr gerfinu ef hann slasaði sig, áður en hann gat sýnt tilfinningar. „Ég man að ef hann til dæmis datt og meiddi sig en var í búning þurfti hann að fara úr búningnum áður en hann leyfði sér að gráta. Það er svolítið það sem þau eru að gera núna. Hatari er í búning og þar af leiðandi í karakter á meðan hann er hér.“

Hluti hópsins hefur lengi þekkst, en Matthías og Klemens eru systkinabörn og hafa alltaf verið nánir. Eftir að Klemens og Einar urðu vinir um 15 ára aldur komu foreldrar hans inn í hópinn sem hefur farið sístækkandi með innkomu stelpnanna í Hatara.

Björg Magnúsdóttir ræddi við foreldra Hatara í Tel Aviv og hægt er að hlýða á innslagið í spilaranum hér fyrir ofan.