Bæði atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin fagna vaxtalækkun Seðlabankans um hálft prósentu stig. Spáð er 0,4% samdrætti á þessu ári en að 2,5% hagvöxtur verði á næsta ári. Hagvöxtur var 4,6% í fyrra. Samdráttur er hafinn í efnahagskerfinu en búist er við að hann vari í stuttan tíma.

„Eftir mjög góð ár hefur þjóðarbúskapurinn orðið fyrir áföllum á síðustu mánuðum. Samdráttur er því hafinn og slaki er að myndast sem meðal annars birtist í fækkun starfa og meira atvinnuleysi. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað því í gær að lækka vexti bankans um 0,5%,sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri þegar tilkynnt var um lækkunina. 

Mikilvægt skref

Bæði verkalýðshreyfingin og forystumenn Samtaka atvinnulífsins fagna ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans. En er ástæða að fagna þegar fram undan er samdráttur? Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir að í nokkurn tíma hafi verið ljóst að það stefndi í samdrátt. SA hafi varaða við því í eitt og hálft ár.

„Ég hygg eins og lagt var upp með lífskjarasamninginn að hann væri samsett lausn ekki bara í gegnum launaliðinn, heldur í gegnum stærsta kostnaðarlið heimila og fyrirtækja. Þá tel ég í ljósi stöðunnar sé þetta mikilvægt skref og ég fagna því,“ segir Halldór Benjamín

Ánægjulegt skref

Verkalýðshreyfingin fagnar vaxtalækkuninni. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að hún sé hluti af þeirri vegferð sem farið var í með gerð kjarasamninga.

„Bæði til að koma til móts við stöðuna í hagkerfinu og líka til að koma til móts við það sem Seðlabankinn taldi þurfa til að forsendur væru fyrir lægri vöxtum. Þetta er líka í takt við það sem við erum að reyna að gera, það er að lækka kostnað við að lifa. Þetta er bara mjög ánægjulegt skref og ég fanga þessu mjög,“ segir Ragnar Þór.

Rætt er við Halldór Benjamín og Ragnar Þór í Speglinum.