Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir spilaði sinn fyrsta keppnisleik á Laugardalsvelli í rúm tvö ár í kvöld þegar hún var í byrjunarliði Íslands gegn Ungverjalandi í fyrsta leik undankeppni EM 2021 í kvöld.

 

„Gott að ná í þrjú stig. Byrjuðum vel, gerðum þetta svo erfitt fyrir okkur. Vorum góðar fyrstu tíu en vorum svo bara lélegar í fyrri hálfleik. En við komum sterkari út í seinni og kláruðum þetta þá, sem var mikilvægt,“ sagði Dagný eftir leikinn í Laugardalnum en Dagný skoraði þriðja mark Íslands í 4-1 sigri.

Langt er síðan Dagný spilaði síðast keppnisleik á Laugardalsvellinum en hún eignaðist barn fyrir ári og lék því ekkert með landsliðinu í fyrra. „Ég verð að viðurkenna að það var smá fiðringur. Þó að það sé stutt síðan ég spilaði landsleik að þá hef ég ekki spilað á Laugardalsvelli í tvö ár. Ég fékk færin til að skora fleiri en eitt en það var gott að brjóta ísinn. Það skiptir kannski ekki máli hver skorar. En ég viðurkenni alveg að ég varð smá „emotional“ í þjóðsöngnum. Það er gaman að vera komin aftur.“