Lögreglan leitar erlendra vegagerðarmanna sem bjóðast til að setja bundið slitlag á heimkeyrslur og rukka milljónir fyrir. Svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Vesturlandi segir vinnubrögðin þannig að slitlagið losni af eftir skamman tíma. Viðskiptavinur vegagerðarmannanna segir ástæðu til að vara við þeim.

Vegagerðarmennirnir bönkuðu upp á í Lækjarkoti í Borgarfirði á mánudag. Sá sem ræddi við húsráðendur talaði að þeirra sögn lélega ensku, en þó var hægt að skilja hann.  Ásta Ólafsdóttir íbúi í Lækjarkoti sagði erindið nokkuð sérstakt.

„Hann sagðist vera með afgang af malbiki og hvort hann mæti setja það miður hjá mér.“
Og ræddi ekki um neina greiðslu fyrir það?
„Ekki á þessum punkti. Ég hélt hann þyrfti bara að losa bílinn, þyrfti að dumpa einhverju smotteríi áður en hann færi áfram. Þá verð ég dálítið jákvæð og finnst allt í lagi að fá smá rykbindingu hérna  nálægt húsinu og ég spyr hann hvað þetta sé mikið og hann segist ekki vita það. Og ég hugsa; afgangur getur ekki verið mikið.“

Fyrir utan allt annað þá voru vinnubrögðin hjá þessum vinnuflokki ekki til fyrirmyndar og það má glögglega sjá hér á veginum heim að Lækjarkoti. Rrétt utan við hliðið, þar var Vegagerðin að verki, þar er slitlagið fast og þétt, en um leið og komið er inn fyrir hliðið þar sem vinnuflokkurinn var að verki, þar er allt laust og mun fljótlega fara af. Svo virðist sem engin undirbúningsvinna hafi farið fram, heldur bikið og mölin lögð beint ofan á þurra moldina. Pálmi Þór Sævarsson svæðisstjóri Vegagerðarinnar kom í dag og leit á aðstæður, en vegurinn heyrir undir Vegagerðina. Hann var ekki sáttur við það sem hann sá.

„Mér finnst þetta bara hálfótrúlegt hvernig er búið að fara með veginn hjá okkur. Þetta eru ekki vinnubrögð sem við viðhöfum og ekki til fyrirmyndar. Við teljum miðað við það sem við höfum séð hérna  að þetta endist ekki mjög lengi.“

Ekki þarf ekki mikið til að ná slitlaginu af. En svo kom að því að rukka fyrir verkið.

„Þeir koma um fjögurleytið og tala um að fara að rukka og ég sagði þeim að Vegagerðin sæi alfarið um veginn hérna og þeir yrðu bara að tala við Vegagerðina. Ég myndi ekki greiða neitt,“ segir Trausti Eiríksson í Lækjarkoti.

Ása og Trausti segja að mennirnir hafi sagt fermetrann af slitlagi kosta 5.000 krónur, en þeir væru með sérstakt tilboð upp á 3.000. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni telst eðlilegt verð rúmar 1200 krónur. Trausti var ekki tilbúinn að borga þrjár milljónir króna fyrir verkið.

„Ég talaði við lögfræðing og náði í hann í síma. Lögfræðingurinn talaði við þá og sagði þeim  það að þetta væri ekki gert svona hérna á Íslandi, það gengi ekki svona að koma bara og losa einhverjar restar og svo koma þeir bara með reikning upp á fleiri milljónir. Ég þeim að í fyrsta lagi væri ég ekki með neinar þrjár milljónir í vasanum og það væri alveg ljóst að ég gæti ekki borgað þeim neitt. Þeir yrðu að tala við Vegagerðina því þeir sjá alfarið um veginn.“

Vegagerðin hefur farið með málið til lögreglu. Jón Haukur Hauksson staðgengill lögreglustjóra staðfestir það.

„Já, okkur hefur borist erindi frá Vegagerðinni og málið er í vinnslu hjá okkur.“
Eruð þið að reyna að hafa upp á þessum mönnum?
„Okkar menn eru á kreiki að reyna að hafa upp á þessum mönnum til þess að taka af þeim stuttan framburð og afla meiri upplýsinga.“

Á bílastæðinu við Hyrnuna í Borgarnesi var malbikunarbíll á breskum númerum. Bílstjórinn talaði litla ensku, sagðist ekki vita hvað yfirmaður hans héti eða hvert hann væri sjálfur að fara og vildi sem minnst við fréttamann tala. Hann ók í suður, en skammt utan við Borgarnes hafði hann snúið við og beið þar átekta. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Suðurlandi og Norðurlandi eystra hefur slíkur flokkur eða flokkar verið þar á ferð.