Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að varað hafi verið við veðri snemma í gær. Í gulri viðvörun sem nú er í gildi sé talað um að blindhríð sé á hálendinu og alls ekkert ferðaveður. Elín var í Morgunútvarpinu spurð að því hvort það hefði ekki átt að segja sig sjálft að fara ekki í með börn og ungmenni í vélsleðaferð þegar viðvörun er í gildi.
„Sko, mér finnst það. Nú veit ég ekki hvað lá þarna að baki en ég veit að þessi gula viðvörun, sem talar um ekkert ferðaveður og blindhríð á hálendinu, snemma í gær, þannig að ef þetta fólk var að fara upp á Langjökul síðdegis þá er það náttúrlega bara að fara á eigin ábyrgð eða á ábyrgð ferðaþjónustuaðila ef þetta var skipulögð ferð, sem verður þá að svara fyrir það að fara með fólk.“
Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og Miðhálendi. Elín segir að ekki sé hægt að treysta á að skjól sé við fjöll því vindátt geti breyst skjótt. Ferðaþjónustan geti haft samband við Veðurstofuna til að fá upplýsingar en öllum hafi verið ráðlagt í gær að halda sig heima. Gul viðvörun í janúar sé ekki eins og gulri viðvörun að sumri.
„Þannig að þetta er alltaf svolítið mat. Fólk verður auðvitað að fylgjast með og fara að þeim ráðum sem eru gefin. Það er svolítið ríkt í okkur Íslendingum: Það kemur ekkert fyrir mig, ég er á svo góðum bíl.“
Í dag verður vestanátt 18-25 metrar á sekúndu og víða él en gert ráð fyrir að það lægi talsvert síðdegis og í kvöld. Það stendur þó ekki lengi, því í nótt
er spáð vaxandi suðvestanátt, hvassviðri eða stormi með éljagangi á
morgun, segir í hugleiðingum veðurfræðings. Hægari vindur og bjart veður á Austurlandi. Frost að sjö stigum. „Snýst í hvassa austanátt á föstudag með slyddu eða snjókomu, en rigningu um landið sunnan- og austanvert síðdegis,“ segir í hugleiðingunum.