„Ég var svolítið stressaður en ég er bara góður núna,“ segir Frank Aron Booker um fyrsta landsleik sinn fyrir Íslands hönd í körfubolta. Frank Aron spilaði sinn fyrsta leik er Ísland mætti Portúgal ytra í forkeppni EM 2021 í vikunni.

„Það er loksins kominn tími til fyrir mig að koma og spila með landinu mínu. Ég er mjög heppinn. Það er loksins kominn tími núna því ég var alltaf að spila með skólanum mínum [í Bandaríkjunum]. En núna hef ég tíma til að vera með landsliðinu og hugsa um það,“ segir Frank Aron.

Faðir Franks og nafni er Frank Booker sem lék hér á Íslandi frá 1991 til 1995, með ÍR, Val og Grindavík. Aðspurður um minningar af föður sínum sem leikmanni segir Frank yngri: „Bara smá, ég var of lítill til að muna mikið. En ég man eftir að hafa farið á leiki og æfingar með honum,“

„Hann er alltaf að tala um Ísland og hann elskaði að vera hérna. Vonandi kemur hann aftur hingað til að heimsækja,“

Eftir feril í Oklahóma, Flórída og Suður-Karólínu í bandaríska háskólaboltanum samdi Frank Aron við ALM Évreux í frönsku úrvalsdeildinni síðasta haust. Hann segir hafa tekið sinn tíma að aðlagast í Frakklandi en hann er nú án liðs.

„Fyrsta árið mitt var fínt. Ég þurfti að venjast öllu, liðunu þjálfaranum og slíku. Ég er ekki alveg viss hvert ég fer næsta vetur, ég er ekki að hugsa um það núna. Ég er bara að hugsa um landsliðið og reyna að komast á EM 2021. Það sem gerist, gerist.“

Ísland tapaði naumlega gegn Portúgal ytra á fimmtudaginn, 80-79. Ekkert annað en sigur kemur því til greina er liðið mætir Sviss í Laugardalshöll klukkan 13:00. Aðspurður um styrk svissneska liðsins sagði Frank Aron: „Þeir eru með góða skotmenn og Capela [Clint, leikmann Houston Rockets í NBA-deildinni]. Við bara erum ekkert mikið að hugsa um það heldur erum við að hugsa um hvað við erum að gera,“

Leikur Íslands og Sviss er í Laugardalshöll klukkan 13:00 á morgun og verður sýndur beint á RÚV. Útsending hefst klukkan 12:40.