Greiðsla fyrir dómgæslu í leikjum efstu deildar karla í fótbolta er 135 prósentum hærri en fyrir leiki í efstu deild kvenna. Sömu greiðslur eru fyrir dómgæslu hjá báðum kynjum í körfubolta og handbolta.

 

Morgunblaðið vakti athygli á málinu í gærmorgun en þar var tekið saman hversu mikið væri greitt fyrir leiki eftir deildum í fótbolta, handbolta og körfubolta. Sömu laun eru greidd í handbolta og körfubolta, hvort sem um er að ræða leiki í karla- eða kvennaflokki. Annað er hins vegar uppi á teningnum þegar kemur að fótbolta. Árið 2019 fengu dómarar 37.600 krónur fyrir dómgæslu í leik efstu deildar karla í fótbolta en 16 þúsund krónur fyrir leiki í efstu deild kvenna, sem er um 135 prósenta munur. Mist Edvardsdóttir, leikmaður Íslandsmeistara Vals, segir að þessi munur á milli deilda sé algjör vanvirðing fyrir kvennafótboltann.

„Mér finnst þetta bara mjög sjokkerandi. Maður hefur nú alveg heyrt af því að það sé einhver launamunur en 135% er bara alveg rosalega mikið. Þetta er bara svolítið blaut tuska í andlitið og bara vanvirðing í rauninni. Það er eins með leikmenn og dómara, eftir því sem reynslan verður meiri, því betri verður þú í þínu fagi. Það er rosalega pirrandi sem leikmaður að horfa upp á það ár eftir ár að það kemur inn dómari, hann fær leik í C-deild karla og efstu deild kvenna, fær að reka sig á, gera mistökin og hlaupa af sér hornin og svo er hann bara farinn í efstu deild karla og við sjáum hann ekki meir. Þetta er bara, eins og ég segi, vanvirðing og ömurlegt í rauninni að heyra þessar tölur í dag,“ segir Mist Edvardsdóttir, leikmaður Íslandsmeistara Vals.

Framkvæmdastjóri KSÍ, Klara Bjartmarz, sagði í hádegisfréttum RÚV í dag að staðan sé svipuð í nágrannalöndunum og að KSÍ sé meðal annars að miða við tölur frá UEFA og FIFA. Hún segir þó að munurinn á milli deildanna hafi dregist saman en veit ekki hvernig málum verður háttað í næsta samningi sem gerður verður við íslenska dómara. 

„UEFA og FIFA verður seint hampað fyrir einhverja jafnréttisbaráttu. Þannig að þetta er pínu spark í rassgatið fyrir okkur og mér finnst að knattspyrnusambandið ætti aðeins að endurskoða sín mál.“

Mist segir að úr því að staðan sé svona sé auðvelt að skilja það hvaða leiki dómarar velja að taka að sér.

„Þetta er bara mjög auðvelt reikningsdæmi. Ég lái þeim ekki, það þyrfti ekkert að spyrja mig tvisvar um hvaða tímakaup ég myndi taka,“ segir Mist að lokum.