Vandi barna sem eru alvarlega veik vegna fíkniefnaneyslu er enn óleystur, átta mánuðum eftir að heilbrigðisráðherra fól Landspítala að annast þjónustu við þau. Funi Sigurðsson, forstöðumaður Stuðla, segir að leysa þurfi vandann áður en einhver deyr á lokuðu deildinni þar.
SÁÁ hefur um árabil annast meðferð barnungra fíkla. Í fyrravor vaknaði umræða um hvort heppilegt væri að sinna börnum og unglingum á Vogi, eftir að fullorðinn sjúklingur braut í tvígang á sextán ára stúlku. Í fyrravor lýsti SÁÁ því yfir að hætt yrði að taka við börnum undir 18 ára á Vog. Barnaverndarstofa rekur meðferðarstöðina Stuðla fyrir unglinga, en Stuðlar geta ekki sinnt bráðveikum sjúklingum. Því hefur vantað bráðaþjónustu við börn með alvarlegan fíknivanda, til dæmis þau sem eru í geðrofi vegna fíkniefnaneyslu.
"Við erum búin að vera að kalla eftir því að eitthvað verði gert í þessu svo það gerist ekki eitthvað hræðilegt, að einhver deyi hreinlega hjá okkur, því við erum ekki sjúkrahús," segir Funi. "Lokaða deildin hjá okkur er ekki sjúkrahús. Við gerum okkar besta og sinnum þessum börnum eftir okkar bestu getu, en okkur finnst vanta þarna."
Eins og staðan er núna eru börn sem eru alvarlega veik vegna fíkniefnaneyslu oft fyrst send á Stuðla, þar sem starfsfólkið neyðist til að hringja á sjúkrabíl og senda þau á bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss til að þau fái læknishjálp. Þar liggja þau svo innan um fólk með handleggsbrot eða brunasár, þangað til bráð hefur af þeim að einhverju leyti. Þessi börn eru enn vegalaus í kerfinu.
Í ágúst í fyrra skipaði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra stýrihóp til að bæta þjónustu við unglinga í neysluvanda. Upphaflega var rætt um að Stuðlar og Vogur önnuðust þjónustuna í sameiningu, en í nóvember fól Svandís Landspítalanum að veita börnum og ungmennum afeitrunarmeðferð, bráðameðferð og aðra þá sjúkrahúsþjónustu sem þyrfti. Að þeirri meðferð lokinni yrði þeim vísað í viðeigandi meðferð á barna- og unglingageðdeild eða Stuðla. Svandís tók fram að bregðast yrði við með skjótum hætti, til að mæta bráðavanda barna og unglinga. Nú, átta mánuðum síðar, hefur komið í ljós að Landspítalinn getur ekki sinnt þessari þjónustu að sinni. Samkvæmt heimildum fréttastofu strandaði málið meðal annars á því að deildir spítalans gátu ekki komið sér saman um hver þeirra ætti að sinna þjónustunni. Því hefur sjúkrahúsinu Vogi verið falið að halda áfram að sinna meðferðarþjónustu við börn og unglinga, að minnsta kosti tímabundið. Á meðan er þeirri spurningu enn ósvarað hvað eigi að gera við börn í bráðri hættu vegna fíkniefnaneyslu.
"Það sem við vorum að kalla eftir þegar við báðum um samráðsfund með Landspítala og fleirum það var að leysa þetta, að það myndi hreinlega ekki einhver deyja á lokuðu deildinni hjá okkur. Það er frábært að styrkja unglingadeildina á Vogi, en það leysir ekki nákvæmlega þetta," segir Funi Sigurðsson.