Á föstudag kom út platan Father of the Bride með bandarísku New York-hljómsveitinni Vampire Weekend. Þetta er fjórða plata hljómsveitarinnar en sex ár eru síðan síðasta plata kom út, sú stórgóða Modern Vampires of the City.
Á nýju plötunni eru hvorki meira né minna en átján lög og er skemmst frá því að segja að hún hefur fengið frábæra dóma. Einhverjir gagnrýnendur hafa gengið svo langt að kalla plötuna snilldarverk. Hún fær fjórar stjörnur í The Guardian, einkunnina 8 hjá bandaríska vefmiðlinum Pitchfork, fjórar og hálfa stjörnu hjá Rolling Stone, fjórar stjörnur í The Independent, og þannig mætti lengi telja. Tónlistin er afar fjölbreytt, áhrif sótt í ýmsar áttir; þarna er R&B, sálartónlist, kántrítónlist, þjóðalagatónlist, rokktónlist og svo framvegis, og svo framvegis, víst er að breiddin er mikil. Og, já, þessi breidd, fjölbreytnin hefur gert það að verkum að plötunni Father of the Bride, titillinn er sóttur í samnefnda gamanmynd frá árinu 1991 með Steve Martin í aðalhlutverki, hefur jafnvel verið líkt við Hvíta albúm Bítlanna frá árinu 1968, eða lagasyrpunna á B-hlið plötunnar Abbey Road sem kom út ári síðar.
Potturinn og pannan í þessu öllu saman er lagahöfundurinn, textahöfundurinn og söngvarinn Ezra Koenig, sem syngur um dómsdag, popúlíska stjórnmálamenn, óvissu, umhverfismál, sjálfsánægju, ástarsorg; brúðkaup og kirkjur koma mjög við sögu og stuðst er við myndmál úr Biblíunni. Platan var tekin upp í Los Angeles á þremur síðastliðnum árum, unnin í samstarfi við menn á borð við Ariel Rechtshaid, David Macklovitch úr kanadíska raf-fönk dúóinu Chromeo, breska upptökustjórann Mark Ronson, Rostam Batmanglij, einn af stofnendum Vampire Weekend, bandaríska tónlistarmanninn og upptökustjórann Steve Lacy, og söngkonuna og gítarleikarann Danielle Haim, svo nokkur nöfn séu nefnd. Margt fólk kom að gerð þessarar plötu en potturinn og pannan er eins og áður segir hinn 35 ára gamli Ezra Michael Koenig, og gagnrýnendur segja að hann hafi nú gert sinn stóra ópus.
Hljómsveitin Vampire Weekend var stofnuð í New York 2006, liðsmennirnir á þeim tíma stúdentar í Columbia háskóla þar í borg. Fyrsta platan hét einfaldlega Vampire Weekend, kom út 2008 og fékk frábæra dóma, og það sama má segja um næstu tvær plötur, Contra, frá 2010 og áðurnefnda Modern Vampires of the City frá 2013. Fyrir þá plötu fékk hljómsveitin Grammy verðlaun þegar hún var valin besta óháða hljómplata þess árs.
Fyrstu smáskífurnar af nýju plötunni, Father of the Bride, komu út í janúar, Harmony Hall og 2021, en platan hefur eins og áður segir verið lengi í vinnslu. Áhrifin á plötunni eru amerískari en oft áður hjá Vampire Weekend, áhrif sótt í ýmsar áttir, þarna glittir í Bob Dylan, Beach Boys og Paul Simon. Og já, platan fær frábæra dóma, meistaraverk, segir til dæmis bandaríski tónlistarskríbentinn hjá Rolling Stone, David Fricke. Flóðið er að koma, ekki hylja augu þín, syngur Ezra Koenig, kallaðu þetta dag, kallaðu þetta nótt, víst er að það verður óbærilega hvítt. En hann syngur líka, ég vil ekki lifa svona lengur, en ég vil heldur ekki deyja. Existensíalismi og ástarsorgir. Nýtt hvítt albúm, veit ekki alveg með það, en það er vel þess virði að setjast út á svalir í síðdegissólinni í upphafi maímánaðar, koma sér bærilega fyrir, og hlusta á Vampire Weekend frá New York, með augu og eyru algerlega galopin, átján lög á 58 mínútum, og athuga hvað gerist.