Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, tilkynnti nokkuð óvænt um helgina að hann hefði ákveðið að segja af sér formennsku í flokki sínum Venstre. Varaformaðurinn Kristian Jensen tilkynnti í kjölfarið afsögn. Líklegasti arftakinn er Jakob Ellemann-Jensen, sonur Uffe Ellemann-Jensen sem var formaður flokksins í fjórtán ár undir lok síðustu aldar.
Undanfarnar vikur hefur mikill órói verið innan Venstre sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkur Danmerkur. Margir hafa lýst óánægju með bæði formanninn, og varaformanninn Kristian Jensen, fyrrverandi fjármálaráðherra. Leiðtogar Venstre komu saman til fundar á föstudag og á laugardag átti miðstjórn flokksins að ræða deilurnar. Fundurinn hófst klukkan átta að íslenskum tíma og rúmum klukkutíma síðar yfirgaf Lars Løkke fundinn. Skömmu síðar tilkynnti forsætisráðherrann fyrrverandi á twitter að hann hefði ákveðið að draga sig í hlé. Stuttu síðar kom varaformaðurinn Kristian Jensen og tilkynnti einnig afsögn sína.
Grunnt á því góða í forystunni
Lars Løkke Rasmussen og Kristian Jensen hafa verið formaður og varaformaður flokksins í áratug eða allt frá því að Anders Fogh Rasmussen, formaður flokksins og forsætisráðherra landsins hætti í stjórnmálum til að verða framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. Hann eftirlét völdin í hendur Lars Løkke Rasmussen.
Það hefur alla tíð verið grunnt á því góða milli formannsins og varaformannsins og reglulega soðið upp úr. Lars Løkke sagði fyrir fimm árum að þessar eilífu spurningar um formennsku og varaformennsku stæðu flokknum fyrir þrifum.
Hótaði formannsframboði
Fyrir rúmri viku stakk Jensen upp á því að þeir myndu báðir hætta til að ný samhent forysta gæti tekið við völdum. Því hafnaði Lars Løkke. Þá tilkynnti Jensen að hann ætlaði gegn honum í formannsslag og það ekki í fyrsta sinn. Jensen segir að það hafi orðið til þess að Lars Løkke gafst upp og hætti. Sjálfur hafi hann alltaf ætlað að standa við orð sín um að hætta samtímis Lars Løkke, þrátt fyrir að hafa frá unga aldri stefnt markvisst að því að verða formaður flokksins og forsætisráðherra landsins. Lars Løkke hefur ekki talað við fjölmiðla, fór bakdyramegin út af fundinum og hefur aðeins sent frá sér stuttar tilkynningar á samfélagsmiðlum.
Enn hörðnuðu deilurnar
Deilur innan flokksins og þá sérstaklega milli formannsins og varaformannsins urðu harkalegri eftir að Kristian Jensen mætti í viðtal hjá Berlingske og sagðist algjörlega andvígur hugmynd Lars Løkke um hugsanlegt samstarf Venstre og Jafnaðarmanna.
Deilur formanns og varaformanns flokksins hörðnuðu enn frekar á sumarfundi fyrir um mánuði og órói innan baklandsins varð enn áþreifanlegri. Margir vildu formanninn burt en aðrir sögðu að varaformaðurinn ynni leynt og ljóst gegn honum.
Kosningar einu málin á dagskrá
Enginn bilbugur var þó á formanninum sem tilkynnti 25. ágúst að hann ætlaði sér að halda áfram sem formaður flokksins og væri reiðubúinn í formannsslag á komandi landsfundi. Það breyttist snarlega um helgina og því þarf flokkurinn nú að velja sér nýjan formann og varaformann. Landsfundurinn verður haldinn í Herning 21. september. Á hann mæta um 850 fulltrúar og nýr formaður og varaformaður þurfa að njóta stuðnings helmings þeirra. Kosning formanns og varaformanns eru einu málin á dagskrá.
Ættarveldið í Venstre
Margir eru nefndir til sögunnar sem næsti formaður flokksins. Eitt nafn er þó oftar nefnt en önnur og það er nafn Jakobs Ellemann-Jensen. Hann er pólitískur talsmaður flokksins sem stundum hefur verið líkt við stöðu þingflokksformanns. Jakob er sonur Uffe Elleman-Jensen sem var formaður Venstre í fjórtán ár undir lok síðustu aldar. Anders Fogh Rasmussen tók við af honum og síðan Lars Løkke. Þeir gætu því orðið einu formenn Venstre á milli formannstíðar þeirra Elleman-Jensen feðga. Claus Hjort Frederiksen, Sophie Løhde og Bertel Haarder eru meðal þungavigtarfólks í flokknum sem hefur lýst yfir stuðningi við Jakob og þegar hafa fimmtán af fjörutíu og þremur þingmönnum flokksins gert það einnig. Jakob hefur verið varkár í yfirlýsingum og hefur ekki formlega lýst yfir framboði. Hann segir að nú þurfi flokksmenn að hugsa sinn gang.
Tárvotur fyrir framan fréttamenn
Lars Løkke Rasmussen hefur ekki mætt í viðtöl um atburði helgarinnar og líklegasti arftakinn, Jakob Ellemann-Jensen, hefur talað í véfréttastíl. Það var því varaformaðurinn Kristian Jensen sem stal senunni um helgina. Hann tilkynnti tárvotur um afsögn sína og brotnaði saman undir lok viðtals við fréttamenn.