Athafnamaðurinn Jón Mýrdal var hætt kominn á síðasta ári þegar heilaæxli á stærð við sítrónu uppgötvaðist í höfði hans. Þá hafði hann hagað sér undarlega um hríð og meðal annars keypt öll ísblómin sem til voru í versluninni Kjötborg í tilefnislausri innkaupaferð. Hann opnaði nýverið skemmtistaðinn Röntgen á Hverfisgötu.

Glænýr bar var opnaður á Hverfisgötu 12 í Reykjavík í síðustu viku í húsinu sem áður hýsti nafnlausa pizzastaðinn. Staðurinn ber nafnið Röntgen og er hannaður af Hálfdáni Pedersen. Einn eigenda staðarins, athafnamaðurinn Jón Mýrdal, var hætt kominn á síðasta ári og má segja að hann hafi naumlega sloppið frá dauðanum. Sonur hans var aðeins mánaðargamall þegar kona Jóns og fjölskylda fóru að taka eftir vægast sagt undarlegri hegðun hjá honum áður en í ljós kom að hann var með heilaæxli. 

Fór í sjö sturtur á dag og keypti öll ísblómin

Jón fór á þessum tíma í sturtu sjö sinnum á dag, var mjög utan við sig og vakti meðal annars undrun eiginkonunnar þegar hann fór tilefnislaust í verslunina Kjötborg og kom til baka með öll ísblómin sem til voru í búðinni. Sjálfur man hann ekkert eftir þessum tíma en var orðinn gufuruglaður að eigin sögn. „Eða gufuruglaðri má segja. Einhver sagði: Jón er svo ruglaður fyrir að ef þetta hefði verið venjulegur maður að haga sér svona þá hefði hann greinst löngu fyrr,“ segir hann í viðtali við Andra Frey Viðarsson og Hafdísi Helgu Helgadóttur í Síðdegisútvarpinu um þennan skuggalega tíma. 

Kona vinar Jóns sem var að læra hjúkrun var sú sem tók í taumana að lokum eftir nokkrar vikur af minnisleysi og undarlegum uppátækjum Jóns og sagði: „Hingað og ekki lengra, ég fer með Jón á bráðamóttökuna.“ Þar var hann myndaður, orðinn lamaður í öðru munnvikinu og staðan orðin mjög alvarleg. Í ljós kemur æxli á stærð við sítrónu.

„Náði ekki einu sinni að hætta að reykja“

„Við tekur bráðauppskurður sem heilaskurðlæknirinn sagði að hefði aldrei verið gerður áður því ég átti ekki „breik“ í mínútu í viðbót. Það var kominn svo mikill þrýstingur á heilann að ef ég hefði til dæmis fengið flog þá hefði ég dáið. Það munaði engu,“ segir Jón. „Svo vaknaði ég tólf tímum seinna með hundrað spor, nýja og mjög ljóta klippingu og járnbrautarteina á hausnum.“

Aðgerðin gekk vonum framar og ótrúleg mildi þykir að hann skyldi sleppa nokkuð óskaddaður frá þessari reynslu. Fyrir þremur mánuðum fór hann í eftirlitsheimsókn og var skoðaður og læknirinn sagði að hann þyrfti ekki að mæta aftur fyrr en eftir ár. „Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég farið í tékk á þriggja mánaða fresti en læknirinn sagði að þetta hefði gengið svona vel,“ segir Jón brattur. Hann segist þó þrátt fyrir að hafa verið afar hætt kominn þá horfi hann ekki á lífið allt öðrum augum en áður. „Mér finnst ekki endilega allt breytt. Það er skrýtið þegar fólk lifir af til dæmis hjartaáfall þá segist það meta lífið upp á nýtt en fyrir mig þá tók langan tíma að jafna mig og ég hugsaði ekki strax: „Jess ég ætla að fagna lífinu,“ segir hann. „Ég breyttist örugglega ekki neitt, ég náði ekki einu sinni að hætta að reykja.“

Klæddi sig í kjól fyrir Sögu Garðars

Það er þó ýmislegt í hans fari sem hann ætlar að fagna sérstaklega en hann hefur í gegnum tíðina lagt sig fram við að segja já við öllum áskorunum og ætlar að halda því áfram. „Ég er já-maður sem segir já við öllu, ég klæddi mig til dæmis í kjól fyrir Sögu Garðars,“ rifjar hann upp og glottir. „Maður á bara að segja já og fagna öllu, tækifærunum og lífinu. Ég veit að þetta er klisjukennt en það er ekki sjálfgefið að vera heilbrigður. Það er rosalega frelsandi að segja já við öllu.“

Húsið sem nýi staðurinn Röntgen er í hýsti áður fyrstu röntgenstofu Reykjavíkur og vísar nafn hans því ekki beint í veikindi Jóns enda fór hann í segulómun en ekki röntgenmyndatöku þegar æxlið fannst. „Húsið hýsti líka Kvennaathvarf áður, Gunnar Smári Egilsson rak þarna samlokubar og það er draugur í húsinu. En ef ég hefði ætlað að skíra staðinn í eftir veikindunum hefði hann bara heitið Heilaæxli,“ segir hann kíminn. 

Rætt var við Jón Mýrdal í Síðdegisútvarpinu.