Það verður öllu tjaldað til í Samkomuhúsinu á Akureyri á föstudag þegar Leikfélag Akureyrar frumsýnir söngleikinn Vorið vaknar.
Vorið vaknar byggir á samnefndu leikriti Frank Wedekind frá 1891. Leikritið hefur áður verið sett upp hér á landi en þetta er í fyrsta sinn sem söngleikurinn fer á fjalirnar hér á landi. Marta Nordal leikstýrir, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson er tónlistarstjóri og Lee Proud sér um dans og hreyfingar.
„Þetta verk fjallar um unglinga á 19. öld sem eru að vakna til meðvitundar um sína kynvitund í þjóðfélagi þöggunar,“ segir Marta Nordal. „Þeim er haldið fáfróðum um þessar sterku tilfinningar og það veldur óróa og kvíða og alls kyns hvötum hjá þessum krökkum. Þetta fjallar um vald og valdleysi og ofbeldi, sem á við á öllum tímum.“
Fjöldi ungra leikara tekur þátt í sýningunni en haldnar voru opnar áheyrnarprufur.
„Við völdum úr stórum hópi og það er fullt af ungum leikurum sem eru að stíga sín fyrstu skref þannig að það er líka ofsalega gaman að geta gefið þeim tækifæri, mér finnst það sérstaklega skemmtilegt.“
Í aðalhlutverkum eru Júlí Heiðar Halldórsson og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir en þetta er fyrsta sýning þeirra eftir að þau útskrifuðust úr Listaháskóla Íslands.
„Það er geggjað að fá svona mikið að gera, við erum að syngja og við erum dansa og leika. Þetta er búið að vera rosalega skemmtilegt og gefandi, sérstaklega gott að vera á Akureyri. Við erum bara hér að einbeita okkur að þessu verkefni, búum saman og erum mjög náin.“
Fjallað var um Vorið vaknar í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.