Útþenslunni er lokið í uppbyggingu Reykjavíkur, segir borgarstjóri. Útgefnum byggingarleyfum í borginni fækkar um 600 síðan í fyrra.
Gert er ráð fyrir því að hátt í tvö þúsund nýjar íbúðir komi á markað í Reykjavík á næsta ári og aðrar tvö þúsund eru á framkvæmdastigi. Borgarstjóri kynnti uppbyggingu íbúða í borginni í Ráðhúsinu í morgun. Reiknað er með að byggingaráform fyrir um 800 íbúðir verði samþykkt í ár og að útgáfa leyfa sé að ná jafnvægi á ný. 2018 var metár.
„Ekki bara í samhengi síðustu ára heldur í sögunni. Þá voru 1.400 ný byggingarleyfi gefin út en núna erum við meira í takt við metárin þrjú sem voru þar á undan. En sjáum engu að síður þegar við skoðum þessi plön, að það verður áfram mjög kröftug íbúauppbygging. Og ekki bara fyrir suma heldur alla hópa sem þarf að sinna á húsnæðismarkaði,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur segir að lykillinn að því að geta byggt húsnæði fyrir alla sé aðkoma félaga á borð við Bjargs, fyrir þá sem hafa lægri tekjur, og Félagsstofnunnar stúdenta.
„Ef að þessi atriði myndi vanta, þá væri þetta ekki húsnæði fyrir alla. En það sem ég er svo stoltur af varðandi þessa uppbyggingu er þessi mikla breidd. Þetta er húsnæðisuppbygging fyrir alla.“
Í uppbyggingunni horfa borgaryfirvöld á að þétta núverandi byggð.
„Útþenslu borgarinnar er lokið. Nú erum við að þróa borgina inn á við, gera hana áhugaverðari og skemmtilegir. Því við vitum það að íbúabyggð sem er þétt fylgir líka góð þjónusta í færi við þá sem búa þar. Þá þarf ekki lengur að skutlast eða endursendast borgarmarkanna á milli eftir sjálfsagðri þjónustu, heldur verða hverfin sjálfbærari og betri til að búa í,“ segir Dagur B. Eggertsson.