Kvikmyndin Eden sækir stíft í útlagamyndir eins og True Romance, Trainspotting og Bonnie & Clyde. Hún heldur góðum dampi með hressilegri kvikmyndatöku og klippingu sem heldur áhorfendum við efnið þó að saga og persónusköpun risti ekki sérlega djúpt.


Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Eden er glæný íslensk kvikmynd eftir bolvíska leikstjórann Snævar Sölva Sölvason sem gerði sína fyrstu mynd, Albatross, 2015. Hún var hópfjármögnuð fyrir tilstilli Karolina Fund. Ein fyrsta leikna kvikmyndin hér á landi sem er gerð fyrir tilstilli hópfjármögnunar eftir því sem ég best veit. Fyrir vikið var ungum og óþekktum kvikmyndagerðamanni gert kleift að gera sína fyrstu mynd og koma sér þannig á kortið.

Í Eden er Snævar hins vegar kominn með framleiðendur á bak við sig. Myndin er blanda af spennu og gamanmynd. Hún gerist í Reykjavík og fjallar um parið Lóu og Óliver sem leiðast út í fíkniefnasölu og takast óhrædd á við stærstu skúrka undirheimanna á milli þess sem þau djamma hressilega og njóta gróðans og efnanna sem þau selja.

Í viðtali við leikstjórann Snævar Sölva í Morgunblaðinu kemur fram að hann fékk hugmyndina að verkefninu þegar hann var að grúska í Biblíunni fyrir annað verkefni. Lóa og Óliver eru eins konar Adam og Eva í Paradís. Hann fékk svo að hanga með vini sínum sem selur eiturlyf til þess að Eden gæfi einnig raunsanna mynd af því hvernig fíkniefnasala fer fram. Leikstjórinn segir að hann hafi langað til að gera True Romance á Íslandi og hann horfði einnig mikið til kvikmyndarinnar Trainspotting við gerð Eden. Sagan vísar þannig í hina sígildu sögu um Bonnie og Clyde, bófapar á flótta, en minnti mig að sama skapi á kvikmyndina Blossa frá 1997 eftir Júlíus Kemp, sem kemur að gerð Eden í gegnum framleiðslufyrirtæki sitt, Kisa.

Eden ber kvikmyndaþekkingu leikstjórans merki. Myndin er ein stór vísun og óður til fyrrnefndra kvikmynda. Að sama skapi eru skemmtilegar vísanir í teiknimyndir á borð við Litlu hafmeyjuna og Fuglastríðið í Lumbruskógi sem ættu að höfða til þeirra sem fæddust á níunda áratugnum. Lóa heitir nefnilega Ólavía en eins og allir muna fjallar Fuglastríðið í Lumbruskógi um fuglaparið Ólavíu og Ólíver.

Klippingin er hröð og myndatakan nokkuð hrá sem hæfir efniviðnum vel. Sjónrænt séð tekst vel að skapa heildstæða umgjörð sem skiptir miklu máli í mynd á borð við þessa. Frásögnin er reglulega brotin upp með montage-senum sem eru eins og tónlistarmyndbönd inni í myndinni. Tónlistin í Eden er eftir Magnús Jóhann Ragnarsson og þar er einnig að finna lagasmíðar eftir Þormóð Eiríksson, unga, efnilega og eftirsótta tónlistarmenn sem hafa unnið með öllum helstu störnum hiphop-senunnar á Íslandi.

Skærir litir, neonljós og ljósaseríur eru áberandi í myndinni sem gerist um jólin. Að mínu mati er bæði myndataka og klipping til fyrirmyndar og hljóðið er bara býsna gott. Það var að minnsta kosti ekkert sem truflaði mig þar. Aðalleikaranir Thelma Huld Jóhannesdóttir og Hansel Eagle, sem er listamannsnafn Ævars Arnar Jóhannssonar, eru trúverðug í hlutverkum sínum og mér fannst Thelma Huld sérstaklega kraftmikil og töff sem hin krúnurakaða Lóa. Hún er ekki jafn veimiltítuleg kærasta eins og Rosanna Arquette er í True Romance eins og ég man eftir henni. Það eru fyrst og fremst ungir og minna þekktir leikarar sem koma fram í myndinni og standa sig allir vel. Af skúrkaliðinu í myndinni er Arnar Jónsson eftirminnilegastur í hlutverki sínu sem eityrlyfjabaróninn Flugan. Ég var sú eina í salnum sem hló þegar Flugan segir frá Litlu-hafmeyjuþráhyggju sonar síns, sem einnig er hættulegur glæpon, sem gæti mögulega verið til marks um að ég hafi verið elsti áhorfandinn í bíóinu.

Mér fannst sagan ekkert sérstaklega áhugaverð, enda margsögð, og persónusköpunin er heldur ekkert sérstaklega djúp en það skiptir ekki endilega svo miklu máli hér enda er þetta mynd sem á að skemmta áhorfendum. Grínið var á köflum bara nokkuð gott og myndin hélt dampi allan tímann og ég efast ekki um hún höfði sterkt til yngri áhorfendahóps.

Skemmtilegast fannst mér að sjá hvernig leikstjórinn leikur sér með vísanir í aðrar kvikmyndir en gamlar vídeóspólur fá líka óvænt nýtt hlutverk í myndinni. Þar sem leikstjórinn er alinn upp úti á landi og fæddur á níunda áratug síðustu aldar gefur auga leið að vídeóleigan og takmarkað úrvalið þar hefur verið sterkur áhrifavaldur. Ég hef ekki séð Albatross en ég er forvitin að sjá hvað Snævar Sölvi tekur sér næst fyrir hendur nú þegar hann er búinn að gera sína True Romance á Íslandi.

Það virðist sem meirihluti nýrra íslenskra kvikmynda sem ég hef séð síðastliðið ár fjalli um fíkniefnaheiminn, þar er um ríkulegan garð að gresja vitaskuld og það er mikilvægt að eiga sér áhrifavalda og fyrirmyndir í listum, en það er líka tími til kominn, finnst mér, að fá að sjá nýjar og frumlegar kvikmyndir sem gerast í íslenskum samtíma og fjalla ekki bara um bændur eða dópsala.