Umhverfisráðherra útilokar ekki að lýst verði yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Skotar og Bretar hafa lýst yfir neyðarástandi og náttúrverndarsamtök á Íslandi hafa skorað á ríkisstjórn Íslands að gera slíkt hið sama.
Guðmundur Ingi var í viðtali í Kastljósi í gær í tilefni af nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Hún sýnir að lífríki jarðar hnignar hraðar en dæmi eru um. Neysla og græðgi mannkyns gæti valdið mesta dauða tegunda frá því að risaeðlurnar dóu út fyrir 65 milljónum ára en það er hægt að grípa til aðgerða.
Guðmundur segir að vissulega sé neyðarástand í heiminum. Fólk hafi horft upp á þurrka, flóð og útrýmingu dýrategunda sem í sumum tilfellum eru afleiðingar loftslagsbreytinga.
„Það sem er svo jákvætt við umræðuna í Bretlandi er að almenningur er að þrýsta á stjórnvöld til að setja sér metnaðarfyllri markmið. Bretar eru að skoða að setja fram kolefnishlutleysi 2050, eitthvað sem við ætlum að gera fyrir 2040. Í grunninn snýst þetta um aðgerðir og við höfum lagt fram okkar aðgerðaáætlun sem er í endurskoðun og höfum lagt okkur fram um að koma aðgerðum til framkvæmda. Mér finnst því aðgerðirnar skipta mestu máli. En ég ætla ekki að útiloka neitt í þessum efnum,“ segir Guðmundur.
Guðmundur var líka spurður út í kísilverksmiðjuna í Helguvík. Greint hefur verið frá því að ef verksmiðjan verður opnuð aftur gæti losun á gróðurhúsalofttegundum aukist um 10 prósent. Hvernig samræmist það markmiðum Íslands um að draga úr losun?
„Þetta eru ákvarðanir sem ég hefði kosið að hefðu ekki verið teknar,“ sagði Guðmundur Ingi og benti á að þær hefðu verið teknar áður en hann varð ráðherra. „Ég hef ekki verið talsmaður þess að við séum í mengandi stóriðju og ég skil að að fólki finnist stundum að það sé hálf bjargarlaust þegar kemur að því að horfa upp á þessa miklu mengun sem kemur frá einni verksmiðju. En það er mikilvægt að horfa til þess að það heyrir þá undir eitthvert kerfi sem er að takast á við losunina frá þessum fyrirtækum.“ Þar vísar Guðmundur til samevrópsks kerfis um losunarheimildir. Það er pottum með ákveðnum fjölda heimilda til að losa gróðurhúsalofttegundir. Fyrirtæki í Evrópu fái úthlutað ákveðnum fjölda heimilda. Það fækkar síðan í pottinum eftir því sem árin líða og þá hækkar verðið. Þetta kerfi á að hvetja fyrirtæki til að fjárfesta í búnaði sem dregur úr mengun.
Guðmundur Ingi lagði áherslu á að allir horfðu í eigin barm þegar kæmi að losun gróðurhúsalofttegunda. „Ég ítreka að að það er verkefni stjórnvalda, fyrirtækja og almennings að takast sameiginlega á við þessa stærstu áskorun 21. aldarinnar. Það er ekkert annað í boði.“