Þjóðarbúið verður af um fimm milljörðum króna við það að ýsukvóti skerðist um þriðjung. Útlit er fyrir þriggja milljarða samdrátt í útflutningstekjum á árinu.  Sjávarútvegsráðherra segist ætla að fylgja að mestu leyti ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, sem kynnti veiðiráðgjöf í dag. 

Um þriðjungsminnkun á ýsukvóta vegur þyngst. Hafrannsóknastofnun vill minnka ýsukvótann um 28 prósent, sem eru rúmlega 16 tonn. Samkvæmt útreikningum samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hefur það í för með sér allt að 4,5 milljarða króna samdrátt.

Á móti er lagt til að auka kvóta á þorski, en stofninn hefur ekki verið stærri í um sextíu ár. Þorskkvóti verði aukinn um þrjú prósent eða tæplega 8 þúsund tonn sem skili þriggja milljarða aukningu í útflutningstekjum á ári. „Stofninn siglir lygnan sjó og mun líklega vera á þessu bili á næstu árum,“ segir Guðmundur Þórðarson, sviðstjóri hjá Hafró.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra segir að ekki sé á borðinu að víkja frá tillögum Hafró um þorskkvóta. „ Við að sjálfsögðu tökum fullt tillit til þeirrar ráðgjafar sem við erum að fá. Mér finnst allar líkur til þess að við fylgjum ráðgjöfinni að stærstum hluta,“ segir Kristján Þór.

Alls þriggja milljarða króna samdráttur á árinu

Grálúðustofninn fer minnkandi og Hafró leggur til 12 prósentum minni kvóta, eða sem nemur 2.800 tonnum, sem myndi allt að eins og hálfs milljarðs samdrætti í útflutningstekjum.  Því er útlit fyrir alls þriggja milljarða króna samdrátt í útflutningstekjum á árinu, ef einungis er tekið tillit til botnfisks og hryggleysingja ásamt síldinni.   

Þá eru blikur á lofti í nýliðun ýmissa fiskistofna. Hafró hefur mestar áhyggjur af gullkarfa, blálöngu, hlýra og skötusel. „Það er áhyggjuefni hvernig nýliðun í þessum stofnum er, nokkrum sérstaklega gullkarfa og skötusel,“ segir Kristján jafnframt.

Guðmundur útilokar ekki að loftslagsbreytingar hafi áhrif. „Þær geta verið hluti af þessu, hversu mikið er erfitt að segja. Kannski erum við að fara í einsleitara vistkerfi - þorsk-vistkerfi eins og áður var,“ segir Guðmundur.