„Það var engin leið að segja nei, en svo hugsar maður: hvað er ég búinn að koma mér í?,“ segir tónskáldið Daníel Bjarnason um óvenjulega pöntun á tónverki sem honum barst frá Fílharmóníusveitinni í Los Angeles. Flutningur á verkinu markar hápunkt á aldarafmæli sveitarinnar 24. október. Í tónverkinu, sem innblásið er af upplifun geimfara af jörðinni úr fjarska, er hljómsveitinni skipt upp og þrír hljómsveitarstjórar stjórna flutningi.

Það verða Gustavo Dudamel, núverandi aðalhljómsveitarstjóri Fílharmoníusveitar Los Angeles, og tveir fyrrverandi aðalhljómsveitarstjórar hennar, Esa-Pekka Salonen og hinn 83 ára Zubin Mehta, sem stjórna flutningi verksins.  Metha kvaddi Fílharmoníusveit Ísraels á dögunum en hann hefur stjórnað starfi hennar síðustu ár. 

Daníel segir í viðtali í Víðsjá á Rás 1 að hugmyndin sé í raun alveg í stíl við stefnu fílharmoníusveitarinnar. „Þau hringdu í mig út af allt öðru og svo var hringt strax aftur og sagt: „Já, við gleymdum einu. Okkur langar að panta af þér verk fyrir þrjá hljómsveitarstjóra.“ Það var engin leið að afþakka þetta. Verkefnið er auðvitað mjög spennandi en samt er það líka eiginlega súrrealísk tilhugsun að vera með þessa þrjá þarna á sviðinu að stjórna verki eftir mann,“ segir Daníel.

Tunglið veitir innblástur

„Ég er búinn að vera með geiminn og tungllendinguna á heilanum síðustu ár,“ segir Daníel sem samdi verkið White Flags fyrir Sinfóníuhljómsveitina í Gautaborg til að fagna 50 ára afmæli tungllendingarinnar. Verkið var flutt nýlega á tónleikum sveitarinnar en Daníel segir það í raun útsetningu á bandaríska þjóðsöngnum, innblásið af fánum sem tunglfararnir komu fyrir á yfirborði tunglsins á sínum tíma sem eru nú orðnir alhvítir.