Gunnar Theodór Eggertsson rýnir í þrjár myndir sem sýndar eru á RIFF, alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, Dead Don't Die, Síðasta haustið og Space Dogs.


Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Hinir dauðu deyja ekki, eða The Dead Don‘t Die, er nýjasta kvikmynd bandaríska leikstjórans Jim Jarmusch. Hún er sýnd um þessar mundir á RIFF, Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, en Jarmusch var einmitt heiðursgestur hátíðarinnar fyrir nokkrum árum. Myndin er grín-hrollvekja um uppvakningafaraldur í kjölfar breytinga sem verða á möndulsnúningi Jarðar vegna borunar við heimskautin. Dagur og nótt skekkist, dýr flýja í felur og hinir dauðu rísa úr gröfum sínum. Sögusviðið er smábærinn Centreville í Bandaríkjunum og við fylgjum þremur löggum, sem leiknar eru af Bill Murray, Adam Driver og Chloe Sevigny, í gegnum herlegheitin og kynnumst litskrúðugum íbúum bæjarins í leiðinni. Myndin er meinhæðin, blóðug og stútfull af frægum leikurum og kunnuglegum andlitum úr fyrri verkum Jarmusch. 

Hryllingur og grín geta verið góðir bólfélagar og uppvakningagrín er næstum jafngamalt hrollvekjunum, en heilmikið háð má t.d. finna í klassískum uppvakningamyndum meistarans George Romero, og zombíugrín varð að sínum eigin geira með mynd leikstjórans Dan O‘Bannons, Return of the Living Dead, árið 1985. Nú snýr Jarmusch sér að þessari merku og skemmtilegu hefð og að vissu leyti er eins og hann viti ekkert hverju hann hafi við hana að bæta. Að áhorfi loknu er ég ekki einu sinni viss um að Jarmusch hafi nokkuð horft á zombie-myndir yfir höfuð, því handritið endurtekur gamlar tuggur á merkilega þreytandi hátt, miðað við hversu mikla burði myndin hefur til að vera skemmtileg og fyndin.

Vandamálið liggur í raun í sölupunktinum sjálfum – Jim Jarmusch gerir uppvakningamynd! Það hljómar skringilega, óvenjulega, og hlýtur að vera öðruvísi en allar hinar myndirnar sem hafa fylgt uppvakningaæði síðustu áratuga. En myndin er í raun keimlík óteljandi öðrum svipuðum myndum, nema hvað, það eru frægir leikarar í hverju horni. Þetta vandamál birtist mjög skýrlega snemma í myndinni, þegar fyrstu uppvakningarnir rísa úr gröfum sínum og myndavélin staldrar við annan þeirra, rétt nógu lengi svo að áhorfendur geti örugglega séð að þarna er Iggy Pop að staulast um í rotnandi gervi. Jarmusch blikkar þannig til áhorfenda og setur sjálfsmeðvitaðan tón sem er jú alveg fyndinn á köflum – það er gaman að sjá Iggy Pop ganga um með kaffikönnu úti á götu – en svo er hjakkað svo mikið í sama gríninu að útkoman verður eins og einn stór einkabrandari fyrir Jarmusch og alla frægu vini hans. Myndin byrjar skemmtilega og lítur vel út, eins og skrautleg blaðra sem fangar athygli manns og virðist vísa leiðina í gott partí – en eftir því sem á líður fann ég loftið seytla smám saman úr blöðrunni þar til hún var orðin alveg flöt. Hinir dauðu deyja ekki á sína spretti inni á milli og það er ákveðin gleði fólgin í því að sjá skemmtilega leikara fíflast aðeins á stóra skjánum, en hugmyndasnautt handrit ber heildina ofurliði og myndin hefði einfaldlega þurft að vera miklu fyndnari.

Höldum þá til Íslands, nánar tiltekið að Krossnesi í Árneshreppi, þar sem leikstjórinn Yrsa Roca Fannberg hefur beint tökuvélinni að sveitabæ Úlfars og Oddnýjar og veitt áhorfendum innsýn í síðasta haust þeirra hjóna í fjárbúskap. Þau hafa ákveðið að bregða búi og heimildamyndin Síðasta haustið dregur fram lifandi mynd af daglegu og á sinn hátt tímalausu lífi fjárbóndans.

Síðasta haustið er listilega vel smíðuð heimildamynd. Leikstjórinn Yrsa er greinilega með næmt auga og í samvinnu við myndatökumanninn Carlos Vásquez Méndez ná þau fram mörgum eftirminnilegum og ljóðrænum skotum úr sveitalífinu, án þess þó að falla ofan í óþarfa náttúrumyndir eða einhvers konar ferðamannasýn. Leikstjórinn eyddi miklum tíma með fólkinu á bænum og sú vinna skilar sér í lokaútkomunni. Myndin er tekin upp á filmu og augljóst að sparlega hefur verið farið með efni, hver sena úthugsuð og vandlega samansett. Filman er líka hluti af tímaflakki myndarinnar, en leikstjórinn blandar saman fortíð og nútíð á áhugaverðan hátt, bæði í gegnum efnistökin – að segja frá hverfandi lifnaðarháttum sem þó lifa enn í þjóðinni – en líka í gegnum form myndarinnar og framsetningu, til dæmis með ferningslaga myndramma, en ekki víðmynd, og með filmunni, sem ljær verkinu fallega gamaldags blæ. Á köflum gæti maður auðveldlega haldið að myndin gerðist alfarið á áratugum áður, en svo treður nútíminn sér inn á ýmsa og oft hressandi vegu, eins og þegar krakkarnir ræða ofurhetjumyndir á meðan þeir tálga spýtur niðri við sjó, eða þegar útvarpið ræðir spjaldtölvur, snjalltæki og breytta tíma á meðan tíminn virðist standa í stað inni á bænum. En tíminn stendur ekki í stað, heldur fer í endalausa hringi, og hringrásin er eitt meginþema verksins. Þetta er kunnuglegt efni, vissulega, og kannski ekki mikið sem kemur á óvart í myndinni, en efnið er framsett á grípandi hátt og af mikilli kostgæfni. Gamall og nýr heimur opnast þarna samtímis, hefðum og gömlum þjóðháttum gerð skýr skil, ásamt vanafestunni í sambandi okkar við húsdýrin. Gæludýrin hafa sín nöfn og fá sitt pláss, en hlutgerving búfjárins birtist þarna ekki síður, meðal annars í einkar eftirminnilegri smölunarsenu þar sem nafnlausar kindurnar fá að taka yfir myndina í skamma stund og minna á að saga síðasta bóndans er ekki síður saga um alidýrin sem honum fylgja. Ákveðinn rómantískur tregi svífur yfir Síðasta haustinu, en annars snýst myndin fyrst og fremst um að fanga lifnaðarhætti sveitarinnar á skýran og listrænan hátt og það gerir hún vel. Síðasta haustið er sýnd í aðalkeppnisflokki RIFF og leikstjórinn mun sitja fyrir svörum á sýningu sunnudaginn næstkomandi.

En höldum okkur aðeins lengur við líf dýranna og endum þennan pistil hjá götuhundunum í Moskvu í austurrísku heimildamyndarfantasíunni Geimhundum, eða Space Dogs, eftir Elsu Kremser og Levin Peter. Þar segir annars vegar frá flækingshundinum Laiku, fyrsta geimfaranum, og tilraunaverkefninu í kringum þær undarlegu geimferðir á sjötta og sjöunda áratugnum, og hins vegar frá lífi flækingshunda nú á dögum á götum Moskvu. Frásagnirnar tvær eru tengdar á nokkuð frjálslegan hátt og um leið er sjónarhorn dýra fært í fyrirrúm og samband mannfólks við aðrar tegundir skoðað á afar frumlegan hátt.

Upphafning á sjónarhorni dýra er sjaldséð í listum almennt og sérstaklega í kvikmyndum og Geimhundar er reglulega vel heppnað dæmi um hvernig hægt er að víkka út frásagnarhefðirnar til að gefa öðrum tegundum pláss. Myndin nær að fanga flókið líf götuhundanna án þess að styðjast við hefðbundna sögurödd og færir líf hundanna í samhengi við þá hunda sem voru neyddir til að taka þátt í erfiðum og oft ljótum tilraunum til að efla og upphefja geimvísindi mannfólksins. Fortíðin birtist okkur eins og sameiginlegur draumur, eða kannski frekar martröð, hundanna sem nú lifa á götum Moskvu og myndin virkar bæði eins og dýrafræðileg heimild um götuhunda og ljóðræn stúdía á sambandi okkar við ferfætta frændur okkar. Leikstjórarnir fylgja aðallega tveimur hundum eftir og leyfa þeim að ráða ferðinni, meira að segja þegar þeir rata inn á ofbeldisfullar brautir, því hundalífið er auðvitað enginn dans á rósum. Myndin er hæg og íhugul, þótt sagan sé yfirgripsmikil og stór, og Geimhundarnir eru kannski ekki fyrir alla, og hvað það varðar er líklega vert að vara aðeins við myndinni, því fyrir utan truflandi upptökur af tilraunum á hundum þá neitar myndavélin jafnframt að líta undan þegar lífið er murkað úr gæludýri í atriði sem mun seint gleymast. En þrátt fyrir hið ljóta sem er aldrei langt undan þegar samlífi manna og dýra er gert að söguefni, þá eimir frekar eftir af hinu ljóðræna að sýningu lokinni, og Geimhundarnir minntu mig að ýmsu leyti á heimildamyndastíl Werner Herzogs og þau mörgu eftirminnilegu dýr sem hafa birst í myndum hans. Líf hundanna er bæði kunnuglegt og leyndardómsfullt og leikstjórarnir Kremser og Peter veita aðdáunarverða innsýn í líf þeirra á allt öðruvísi hátt en við erum vön að sjá í náttúrulífsmyndum og öðru dýrslegu efni. Geimhundar, Space Dogs, er sannkallað meistaraverk og leikstjórarnir munu sitja fyrir svörum á sýningu í kvöld, þriðjudag, en myndin er auk þess sýnd einu sinni í viðbót um næstu helgi.