„Við erum búin að bera saman erfðaefni úr birkinu á Skeiðarársandi og birki úr þremur birkiskógum í nágrenninu og það liggur núna fyrir niðurstaða um faðernið, ef svo má segja,“ segir Kristinn Pétur Magnússon, prófessor í erfðafræði við Háskólann á Akureyri.
Kristinn hefur tekið þátt í rannsókn á birkinu á Skeiðarársandi sem stýrt er af náttúruvísindamönnunum Þóru Ellen Þórhallsdóttur og Kristínu Svavarsdóttur. Hlutverk Kristins var að úrskurða um uppruna birkiskógarins á Skeiðarársdandi.
Fyrstu birkiplöntunar á Skeiðarársandi uppgötvuðust árið 1998 en þar er núna að vaxa upp það sem verður innan tíðar stærsti birkiskógur landsins og mun hann ná yfir um 35 ferkílómetra svæði.
Fjallað var um rannsóknina í Landanum haustið 2017 og nú liggur niðurstaðan fyrir. „Og það er ljóst að þetta birki kemur úr Bæjastaðaskógi, sem er ekki slæmar erfðir því þessi gamli birkiskógur þykir sérlega fallegur,“ segir Kristinn.