Þessum viðburði er lokið og því hefur streymið verið fjarlægt.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðar til upplýsingafundar klukkan 14. Alma D. Möller, landlæknir, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn fara yfir stöðu mála með tilliti til COVID-19 hér á landi. Gestur fundarins er Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.

Fundirnir eru nú haldnir annan hvern virkan dag og er næsti fundur á föstudag. Fundirnir eru í beinni útsendingu í sjónvarpi, útvarpi og hér á vefnum.

06/05 14:42
Fréttastofa RÚV
Fundinum er lokið


06/05 14:42
Fréttastofa RÚV
Verkefnið heldur áfram

Víðir lokar fundinum. Hann ítrekar að verkefnið haldi áfram og að fólk verði að sinna persónulegum sóttvörnum. Það styttist í frekari afléttingar en verkefnið er í okkar höndum.

06/05 14:41
Fréttastofa RÚV
Reyna að mæta þörfum sjúklinga og aðstandenda

Páll spurður um heimsóknarbannið á Landspítalanum. Hann segir að ekki sé búið að breyta leiðbeiningum um það, en stjórnendur á hverri deild eru beðnir um að meta hvert tilfelli fyrir sig og reyna að mæta þörfum sjúklinga og aðstandenda fyrir það að hittast.

06/05 14:40
Fréttastofa RÚV
Engin grunsamleg tilfelli á gjörgæslu

Alma segir að gjörgæslulæknar hafi ekki orðið varið við grunsamleg tilfelli sem gætu bent til COVID, áður en smit kom upp. Hins vegar eru fregnir frá Ítalíu sem benda til þess að veiran hafi fyrr farið á kreik þar en áður var talið.

Updated: 06/05 14:40
06/05 14:39
Fréttastofa RÚV
Forvitnilegt hvort veiran hafi komið fyrr

Fregnir af því að utan að talið sé að veiran hafi komið hingað fyrr en áður var talið. Er farið að skoða það hér?

Þórólfur segir þetta áhugavert mál, því vísbendingar benda til þess að þessi sýking hafi byrjað fyrr hér en áður var talið. En þessar mótefnamælingar núna gætu svarað mörgu og það geti vel verið að næsta skref yrði að kanna eldri blóðsýni. Það er þó ekki búið að ákveða það, þó það væri forvitnilegt.

06/05 14:36
Fréttastofa RÚV
Ekki ein uppskrift sem hægt er að fara eftir

Þórólfur segir álitamál hversu hratt eigi að fara til baka. Það er engin ein uppskrift og þjóðir gera þetta mismunandi. En allir eru sammála um að ekki megi gera það of hratt.

06/05 14:36
Fréttastofa RÚV
Óraunhæft að telja veiruna horfna

Ef ekkert smit kemur næstu tíu daga, verður þá flýtt enn frekar afléttingu?

Þórólfur segir að það verði að bíða á milli skrefa. Tíminn er mikilvægur og það er óraunhæft að telja það að veiran sé horfin.

06/05 14:34
Fréttastofa RÚV
102 ára kona læknaðist

Talað um 102 ára konu á Vestfjörðum sem læknaðist af veirunni. Þórólfur segir það mjög ánægjulegt og sýni að fólk getur verið seigt þrátt fyrir háan aldur. Þórólfur segist ekki vita um að eldri einstaklingur hafi læknast.

06/05 14:33
Fréttastofa RÚV
Þrýstingur að reyna að opna landið

Erum við föst á þessari eyju til lengri tíma núna?

Þórólfur segir að reynt verði að opna fyrir ferðamennsku á þann hátt að hægt verði að tryggja það að veiran komi ekki inn aftur. Það er verið að kanna leiðir í því, en það er þrýstingur að reyna að opna landið eins mikið og hægt er. Það er ásókn um að koma hingað og nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið að rétta efnahagslega úr kútnum, segir Þórólfur.

06/05 14:31
Fréttastofa RÚV
Sumir vilja svigrúm og aðrir þurfa svigrúm

Þórólfur ítrekar að sumt fólk þarf að hafa tveggja metra svigrúm, og aðrir vilja svigrúmið, þó aðrir séu slakari. En tveggja metra reglan eru mikilvæg tilmæli.

06/05 14:29
Fréttastofa RÚV
Skilur gagnrýnina

Þórólfur segist skilja það að fólk hafi kröfur um afléttingu takmarkana. Það sé erfitt að hafa haft lokað svona lengi og eðlilegt að fólk fái aftur gamla, góða lífið. Það er hlutverk þríeykisins að stjórna því og eðlilegt að því fylgi skammir. Þau reyna hins vegar að gera sitt besta.

06/05 14:28
Fréttastofa RÚV
Minni áhætta í sundi en ræktinni

Spurt um kröfu líkamsræktarstöðva að fá að opna líka. Þórólfur segir að miklu meiri nánd og snertifletir séu í ræktinni heldur en í sundi. Þar er klór í vatninu sem kemur illa við veiruna og áhættan er minni í sundi en í ræktinni.

Nú er stefnt að því að líkamsræktir fái að opna viku á eftir sundlaugum svo það eigi ekki að vera stórmál.

06/05 14:27
Fréttastofa RÚV
Vinnuhópur um sundlaugar

Þórólfur segir að ýmislegt gæti komið upp, til dæmis varðandi það að opna sundlaugar á ný. Hann segir það koma á óvart hversu margar spurningar vakni við afléttingu takmarkana. Reynt er að hafa samráð við sem flesta.

Víðir segir að stór vinnuhópur hafi tekið til starfa vegna sundlaugarmála, þar sem á að finna leiðir til að allir geti mætt reglum.

06/05 14:25
Fréttastofa RÚV
Ekki búið að ákveða með bari og skemmtistaði

Komið að spurningum. Þórólfur segir ekki búið að ákveða varðandi afléttingu fyrir skemmtistaði og bari. Það eigi eftir að koma í ljós.

06/05 14:24
Fréttastofa RÚV
Undirfjármögnun ennþá vandamál

Páll bendir á að eftir faraldurinn verður undirfjármögnun ennþá ógn við heilbrigðiskerfið. Það er vert að hafa í huga.

06/05 14:23
Fréttastofa RÚV
Kulnun hættuleg í miklu álagi

Páll fer yfir hættuna á kulnun í þessu ástandi með starfsfólk Landspítala í huga, vegna mikils álags. Rannsóknir sýna að það er hættulegt fyrir sjúklinga ef starfsfólk þjáist af kulnun, sem getur komið upp í miklu álagi.

Svarið felst í bættu starfsumhverfi, en vísbendingar eru um aukna kulnun á Íslandi. Viðbótarálag vegna farsóttarinnar er líklegt til að bæta þar í. Hins vegar stóðst heilbrigðiskerfið hér prófið og það getur skipt sköpum og gefur starfsfólki byr undir báða vængi.

06/05 14:20
Fréttastofa RÚV
Lítill neisti getur valdið miklu báli

Páll fer yfir mikilvægi þess að gæta sig. Lítill neisti getur valdið miklu báli og það þarf lítið til að fjöldi fólk sýkist og fleiri í sóttkví.

Það er ekki bara heilsufarslegt tjón sem er undir, heldur einnig tjón fyrir samfélagið og vinnutap. Það er enn engin lækning, bóluefni eða neitt slíkt og því verður að fara varlega.

06/05 14:19
Fréttastofa RÚV
COVID göngudeild í viðbragðsstöðu

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, tekur til máls.

Hann fer yfir tölurnar á spítalanum. 105 hafa legið inni með COVID, þar af endurinnlögn hjá fjórum. 27 á gjörgæslu. 102 hafa útskrifast. 15 hafa í heild farið í öndunarvél.

COVID-19 göngudeildin mun halda áfram, bæði fyrir þá sem enn glíma við eftirköst veikinda og einnig til að vera viðbúin ef faraldurinn kemur upp aftur.

06/05 14:15
Fréttastofa RÚV
Gefa út leiðbeiningar fyrir fólk í áhættuhópum

Alma fer nú yfir þá einstaklinga sem eru í áhættuhópum, en búið er að gefa út sérstakar leiðbeiningar á vef landlæknis um þessa hópa.

Hún bendir því fólki á að vera í sambandi við sína lækna til að meta áhættu, því erfitt er að gefa út leiðbeiningar sem eiga að ná yfir alla þessa fjölbreyttu hópa.

06/05 14:12
Fréttastofa RÚV
Langvinn einkenni sem ganga yfir

Alma bendir þeim á sem eru með langvinn einkenni af COVID, að þetta gengur yfir á endanum. Þeir sem hafa áhyggjur eiga þó að hafa samband og geta þá til dæmis farið á COVID göngudeild.

06/05 14:11
Fréttastofa RÚV
Þakkir til Háskóla Íslands

Alma Möller tekur til máls. Hún byrjar á að þakka Háskóla Íslands, annars vegar fyrir Vísindavefinn, og svo fyrir vísindamennina sem standa að því að rannsaka líðan fólks í faraldrinum.

06/05 14:11
Fréttastofa RÚV
Enn verið að skoða ferðatakmarkanir

Þórólfur vonar að fólk skilji af hverju aðgerðum er létt í skrefum, því það má ekki eiga það á hættu að fá faraldurinn upp á ný.

Þá segir Þórólfur að ekki sé komin niðurstaða á takmörkunum á ferðalögum, en það verður að vera ljóst fyrir 15. maí.

06/05 14:10
Fréttastofa RÚV
Næstu afléttingar 25. maí

Þórólfur segir að vonast sé til að aflétta takmörkunum hraðar ef vel gengur að hemja faraldurinn. Hann segir það hafa tekist vel enn sem komið er, því almenningur fer að reglum. Því er ástæða til að boða hraðari afléttingar.

Stefnt er að því að næsta skref í afléttingu verði 25. maí, í samráði við ráðherra. Þá mætti opna líkamsræktarstöðvar, með skilyrðum. Þá mega fleiri koma saman en nú, til dæmis 100 en það er ekki búið að ákveða endanlega tölu.

06/05 14:08
Fréttastofa RÚV
Tveggja metra reglan ekki ófrávíkjanleg

Þórólfur tekur sérstaklega fyrir tveggja metra regluna og umræðuna undanfarna daga.

Hann bendir á að regluna megi skilgreina sem hluta af einstaklingsbundnum sýkingarvörnum. Einstaklingar reyni þá að halda tveggja metra fjarlægð frá öðrum. Þetta er það sem Þórólfur hefur átt við varðandi tveggja metra reglu og að hún verði gild út árið.

Tveggja metra nándarreglu má einnig skilgreina í kröfu sem verslanir og fyrirtæki þurfa að gera svo einstaklingar geti haldið fjarlægð eins og hægt er.

Það er ljóst að almennt verður slakað á þessari reglu þegar frekari afléttingar verða. En tryggja verður áfram að hægt sé að bjóða einstaklingum tveggja metra svigrúm. Tveggja metra regla verður því ekki ófrávíkjanleg í allri starfsemi.

06/05 14:06
Fréttastofa RÚV
Veiran leynist einhvers staðar

Mat á faraldrinum er eins og áður að fá eða engin tilfelli greinast nú. Það er þó vitað að veiran leynist einhvers staðar í samfélaginu.

Verkefni næstu daga er að halda áfram að taka sýni frá einstaklingum sem eru með einkenni. Íslensk erfðagreining er nú að taka sýni á Vesturlandi.

Fólk er áfram hvatt til að halda sig heima ef það er með eitthvað sem bendir til smits og óska eftir því að fara í prófun.

Þá eru einstaklingar hvattir til að halda áfram að spritta og þvo sér, passa hvar þeir setja hendurnar. Hnerra í olnbogabót og svo framvegis. Þá minnir Þórólfur á tveggja metra regluna.

06/05 14:05
Fréttastofa RÚV
Fundurinn er hafinn

Þórólfur fer fyrst yfir tölur dagsins. Hann segir ánægjulegt að þrír dagar í röð hafa liðið án þess að smit hafi greinst.

Virk smit í samfélaginu nú eru 56. Um 14% þjóðarinnar hefur verið prófuð, eða yfir 50 þúsund.

Á Landspítala eru þrír inniliggjandi, en enginn á gjörgæslu.

06/05 13:43
Fréttastofa RÚV
Ekkert smit þriðja daginn í röð

Ekkert Covid-19 smit greindist hér á landi í gær, þriðja daginn í röð. Þetta kemur fram í tölum dagsins á Covid.is

278 sýni voru tekin hjá Íslenskri erfðagreiningu og 40 hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans.

06/05 13:43
Fréttastofa RÚV
Fundir annan hvern dag

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðar til upplýsingafundar klukkan 14. Alma D. Möller, landlæknir, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn fara yfir stöðu mála með tilliti til COVID-19 hér á landi. Gestur fundarins er Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.


Fundirnir eru nú haldnir annan hvern virkan dag og er næsti fundur á föstudag. Fundirnir eru í beinni útsendingu í sjónvarpi, útvarpi og hér á vefnum.